Erlent

Æðsti klerkurinn heitir Ísraelum enn hefndum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ali Khamenei, æðsti klerkur og leiðtogi Írans, ávarpar trúbræður sína við bænastund í Teheran í dag.
Ali Khamenei, æðsti klerkur og leiðtogi Írans, ávarpar trúbræður sína við bænastund í Teheran í dag. AP/skrifstofa æðsta leiðtoga Írans

Ísraelum verður refsað fyrir loftárás sem felldi sjö íranska hermenn á ræðisskrifstofu Írans í Sýrlandi fyrr í þessum mánuði, að sögn æðsta klerks og leiðtoga Írans. Utanríkisráðherra Ísraels hótar árásum á Íran á móti.

Tólf manns féllu í loftárásinni í Damaskus í byrjun mánaðar: sjö liðsmenn íranska byltingarvarðarins, þar á meðal einn herforingi, fjórir Sýrlendingar og einn liðsmaður líbönsku skæruliðasamtakanna Hezbollah. Ísraelsk yfirvöld hafa ekki tekið ábyrgð á árásinni en hafa búið sig undir hörð viðbrögð frá írönskum stjórnvöldum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Ali Khamenei, æðsti klerkur Írans, hét enn hefndum á bænasamkomu við lok föstumánaðarins ramadan í dag. Stjórnvöld í Teheran viðurkenna ekki tilvist Ísraelsríkis og styðja herskáa hópa sem berjast gegn því eins og Hamas og Hezbollah.

„Þegar þeir ráðast á ræðissvæði okkar var það eins og þeir réðust á landssvæði okkar. Það verður að refsa illa ríkinu og því verður refsað,“ sagði Khamenei sem lýsti því ekki frekar hvernig Ísrael yrði refsað fyrir árásina.

Þá gagnrýndi æðsti leiðtoginn vesturlönd, fyrst og fremst Bandaríkin og Bretland, fyrir stuðning þeirra við Ísrael í átökum þess við Hamas-samtökin á Gasa. Vesturlönd hafi brugðist skyldu sinni að hafa hemil á Ísraelsmönnum.

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, brást við orðum Khamenei í dag með því að hóta hernaðaraðgerðum.

„Ef Íran gerir árás frá landsvæði sínu, svarar Ísrael og ræðst á Íran,“ skrifaði Katz á samfélagsmiðlinum X (Twitter) á bæði farsí og hebresku.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum ísraelska utanríkisráðherrans.


Tengdar fréttir

Íranar hóta hefndum gegn Ísrael

Klerkastjórnin í Íran og vígahópar á snærum þeirra hafa hótað hefndum eftir loftárás á ræðismannsskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi í gær. Ísraelar hafa verið bendlaðir við árásina en í henni féllu háttsettur íranskur herforingi og sex aðrir hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×