Þetta segir í tilkynningu sem Eimskip sendi Kauphöll í gærkvöldi. Líkt og ítarlega hefur verið fjallað um gerði Eimskip sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2021 vegna meints ólögmæts samráðs Eimskips og Samskipa. Eimskip greiddi 1,5 milljarða króna sekt vegna sáttarinnar.
Samskip var aftur á móti sektað um 4,2 milljarða króna vegna meints samráðsins en þarf ekki að greiða sektina á meðan málið er enn fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og eftir atvikum dómstólum.
Samskip tilkynnti í september í fyrra að félagið hyggðist krefja Eimskip um bætur vegna málsins. Nú hefur stefna verið afhent Eimskip og málið komið í farveg.