Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata voru gestir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Þar ræddu þau ýmis mál en byrjuðu á umræðu um undirskriftalista sem hátt í þrjátíu og fimm þúsund Íslendingar hafa skrifað undir gegn Bjarna Benediktsyni.
„Ég veit ekki hvað skal segja,“ sagði Diljá Mist aðspurð um hvernig hún túlki undirskriftalistann.
„Það eru ekki nýjar fréttir að Bjarni Benediktsson sé umdeildur stjórnmálamaður. Raunar eru formenn Sjálfstæðisflokksins jafnan frekar umdeildir. Það er örugglega auðvelt að safna nokkrum undirskriftum og það er auðvitað orðið mjög auðvelt í dag. Reyndar ekki svo auðvelt fyrir alla forsetaframbjóðendur, en það er miklu auðveldara ferli að safna undirskriftum i dag.“
Björn Leví telur hins vegar að það sé auðveldara að safna undirskriftum í Kringlunni heldur en rafrænt á Ísland.is, og að það sé ekki sjálfsagt að safna svo mörgum undirskriftum rafrænt. Þá segir hann að yfirleitt sé ástæða fyrir því að fólk sé umdeilt og í tilfelli Bjarna sé það meðal annars vegna þess að fyrir hálfu ári hafi hann hrökklast úr embætti í kjölfar spillingar.

Diljá Mist brást ekki vel við þessum orðum og spurði Björn Leví hvort hann væri að„bera það upp á umboðsmann Alþingis að hafa sakað Bjarna Benediktsson um spillingu?“
Björn Leví fullyrti að það hefði verið niðurstaðan en þá leiddu þáttastjórnendur talið að öðru. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan, en á meðal þess sem rætt var voru komandi þingmál, skipulagsmál og biðlaun Katrínar Jakobsdóttur auk aðstoðarmanna hennar.