Erlent

Landtökumenn ganga ber­serks­gang á Vestur­bakkanum

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldur logar í húsum Palestínumanna á Vesturbakkanum í morgun.
Eldur logar í húsum Palestínumanna á Vesturbakkanum í morgun. AP/Nasser Nasser

Ísraelskir hermenn fundu í dag lík fjórtán ára fjárhirðis sem sagður er hafa verið myrtur en hvarf hans leiddi til mannskæðra árása landtökufólks á Palestínumenn á Vesturbakkanum.

Eftir að Binyamin Achimair hvarf í gær réðust hópar ísraelskra landtökumanna á að minnsta kosti tíu þorp Palestínumanna þar sem þeir kveiktu í húsum og bílum og skutu á fólk. Einn Palestínumaður dó í árás á þorpið al-Mughayyir og 25 eru særðir.

AP fréttaveitan segir tugi landtökumanna hafa ráðist aftur á þorpið í morgun þar sem þeir særðu þrjá til viðbótar og þar af einn alvarlega. Frá því að stríðið hófst á Gasaströndinni, þann 7. október hafa að minnsta kosti 460 Palestínumenn látið lífið af höndum Ísraelsmanna á Vesturbakkanum. Flestir þeirra voru skotnir af öryggissveitum en margir voru myrtir af landtökumönnum.

Sjá einnig: Ísraelar gefa grænt ljós á ný hús á landtökusvæðunum

Achimair fór frá þorpi sínu snemma á föstudag til að vakta kindur á beit þar nærri. Kindurnar sneru þó einar til þorpsins nokkrum klukkustundum síðar og hófst þá leit að smalanum. Lík Achimair fannst í dag og er hann sagður hafa verið myrtur í því sem yfirvöld kalla hryðjuverki en ekki liggur fyrir hvernig hann dó.

Snemma eftir að hann hvarf hófust árásir landtökumanna á Palestínumenn.

Börðu ljósmyndara

Times of Israel hefur eftir ljósmyndara miðilsins Yedioth Ahronoth að landtökumenn hafi barið hann til óbóta eftir að hann myndaði grímuklædda landtökumenn kveikja í húsum í einu þorpanna sem ráðist var á.

Ljósmyndarinn, sem heitir Shaul Golan, sagðist hafa falið sig undir borði þegar hópurinn nálgaðist hann en barn í hópnum hafi séð hann og bent á hann. Þá hafi meðlimir hópsins barið hann og brennt allan ljósmyndabúnaðinn hans.

Golan segir að þeir hafi einnig leitað í vösum hans eftir minniskortum til að tryggja að hann ætti engar myndir af honum. Hann sagði marga í óreiðunum hafa verið í herbúningum og með byssur.

„Það voru tuttugu eða þrjátíu menn sem börðu mig og þegar ég kallaði eftir hjálp vonaðist ég til að hermenn myndu heyra í mér. En þeir voru hermenn. Ég lá í gólfinu meðan þeir spörkuðu allir í höfuð mitt og maga,“ sagði Golan.

Hann sagðist hafa verið skilinn eftir illa leikinn og afklæddur.


Tengdar fréttir

Mikil eyðilegging í Khan Younis: „Það er ekkert eftir hér“

Palestínumenn lögðu margir leið sína til borgarinnar Khan Younis á suðurhluta Gasastrandarinnar, eftir að ísraelskir hermenn hörfuðu að mestu leyti frá svæðinu um helgina. Borgina segja þeir óþekkjanlega vegna eyðileggingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×