Fótbolti

Leik­­menn víðs­vegar um Brasilíu mót­­mæltu endur­­komu Lima á hliðar­línuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn hinna ýmsu liða voru ekki sáttir með endurkomu Lima.
Leikmenn hinna ýmsu liða voru ekki sáttir með endurkomu Lima. SportTV/Santos

Kleiton Lima, þjálfari kvennaliðs Santos í knattspyrnu, var í september sendur í ótímabundið leyfi á meðan félagið rannsakaði ásakanir á hendur honum. Hann sneri til baka um liðna helgi við litla hrifningu hinna ýmsu leikmanna brasilísku deildarinnar.

Hinn 49 ára gamli Lima hefur starfað sem þjálfari í 25 ár. Í september birti brasilíski fjölmiðillinn Globo Ge fjölda nafnlausra bréfa þar sem alls 19 leikmenn ásökuðu Lima um stöðuga áreitni (e. harrassment).

Þjálfarinn var settur til hliðar á meðan Santos rannskaði málið. Lima sneri svo aftur á hliðarlínuna þegar Santos mætti Corinthians á föstudagskvöld. Leikmenn Corinthias mótmæltu því með að setja hendur fyrir munn sinn þegar liðin voru kynnt til leiks.

Álíka mótmæli áttu sér stað milli Avai Kindermann og Palmeiras. Lið Santos lét þó vera að mótmæla þjálfara sínum.

Í frétt enska miðilsins Daily Mail segir Santos að það hafi sýnt og sannað að ásakanirnar séu einfaldlega ekki sannar. Þær sem hafa kvartað segja hins vegar Santos ekki hafa haft samband við sig meðan mál Lima var til rannsóknar.

Hvað leikinn á föstudag varðar þá vann Corinthians 3-1 sigur og er sem fyrr með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir fimm umferðir. Santos hefur tapað þremur leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×