Sport

34 ára móðir búin að vinna þrjú stór­borgar­mara­þon á einu ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hellen Obiri sést hér á verðlaunapallinum en hún sér ekki eftir ákvörðun sína að skipta yfir í maraþonhlaup.
Hellen Obiri sést hér á verðlaunapallinum en hún sér ekki eftir ákvörðun sína að skipta yfir í maraþonhlaup. Getty/Paul Rutherford

Hellen Obiri fagnaði sigri í Boston maraþoninu í gær. Hún hefur þar með unnið maraþonið í Boston borg tvö ár í röð og vann einnig New York maraþonið í nóvember í fyrra.

Hin keníska Obiri er sannarlega búin að koma sér vel fyrir sem drottning maraþonhlaupanna í heiminum eftir að hafa unnið þessi þrjú stórborgarmaraþon á einu ári.

Obiri er 34 ára gömul og á níu ára gamla dóttur. Hún vann silfur í 5.000 metra hlaupi á síðustu tveimur Ólympíuleikum (2016 í Ríó og 2021 í Tókýó) en ákvað að skipta yfir í maraþonhlaupið árið 2022. Hún sér örugglega ekki eftir því.

Obiri sleit sig frá löndu sinni Sharon Lokedi á síðustu kílómetrunum og kom í mark á tveimur klukkutímum, 22 mínútum og 37 sekúndum. Þriðja varð síðan hin 44 ára gamla Edna Kiplagat sem sjálf hefur unnið Boston maraþonið tvisvar sinnum.

„Það er ekki auðvelt að verja titilinn. Síðan að Boston maraþonið byrjaði hafa aðeins sex konur náð að verja hann. Ég sagði því við sjálfa mig: Get ég orðið ein af þeim? Ef þú vilt verða ein af þeim þá þarftu að leggja enn meira á þig,“ sagði Obiri.

„Ég er svo ánægð að vera orðin ein af þeim. Nú er ég komin i sögubækurnar í Boston,“ sagði Obiri.

Obiri er nú sigurstrangleg í maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum í París en þetta verða fyrstu leikarnir þar sem maraþonhlaup kvenna verður lokagrein leikanna og endar með verðlaunaafhendingu á lokahátíðinni.

Eþíópíumaðurinn Sisay Lemma vann Boston maraþonhlaupið hjá körlunum. Hann kom í mark á tveimur klukkutímum, sex mínútum og 17 sekúndum og varð 41 sekúndu á undan landa sínum Mohamed Esa. Keníamaðurinn Evans Chebet varð þriðji en hann var að reyna þriðja Boston maraþonið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×