Erlent

Stjórn­völd í Katar að endur­skoða sátta­semjara­hlut­verk sitt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Skotið í átt að Gasa.
Skotið í átt að Gasa. AP/Ohad Zwigenberg

Stjórnvöld í Katar segjast vera að endurskoða hlutverk sitt sem sáttasemjarar í deilum Ísraelsmanna og Hamas. Friðarviðræður hafa nú staðið yfir í margar vikur án árangurs.

Forsætisráðherrann Mohammed bin Abdulrahman bin Jassim Al Thani greindi frá þessu á blaðamannafundi í Doha. Sagði hann menn hafa freistað þess að misnota forystuhlutverk Katar í viðræðunum og sakaði stjórnmálamenn í kosningabaráttu um að reyna að „skora stig“ með því að taka skot á Katar.

Benda má á í þessu samhengi að á þriðjudaginn sendi sendiráð Katar í Washington frá sér yfirlýsingu þar sem Steny Hoyer, þingmaður Demókrataflokksins, var gagnrýndur fyrir ákall sitt eftir því að Katar þrýsti á Hamas um að tryggja lausn gíslanna sem enn eru í haldi samtakanna.

Sheikh Mohammed greindi frá því fyrr í gær að samningaviðræður Ísrael og Hamas, sem hafa átt sér stað með milligöngu Katar, Bandaríkjanna og Egyptalands, væru í járnum og á viðkvæmu stigi.

Guardian greinir frá því að Ísraelsmenn hafi aukið viðbúnað sinn við landamærin að Gasa, að því er talið í undirbúningi fyrir áhlaup á Rafah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×