Erlent

Ríki heims verja met­u­pp­hæðum til her­mála

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Útgjöld Ísraelsmanna jukust um 24 prósent, aðallega vegna stríðsins við Hamas.
Útgjöld Ísraelsmanna jukust um 24 prósent, aðallega vegna stríðsins við Hamas. AP/Ohad Zwigenberg

Þjóðir heims hafa aldrei varið meiri fjármunum til her- og varnarmála en útgjöldin á heimsvísu eru nú talin nema um 2.440 milljörðum Bandaríkjadollara. Útgjöldin jukust um 6,8 prósent milli áranna 2022 og 2023.

Þetta segir í nýrri skýrslu Stockholm International Peace Research Institute (Sipri) en þetta mun vera í fyrsta sinn sem útgjöld aukast á öllum svæðum; í Afríku, Asíu og Eyjaálfu, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku og Mið-Austurlöndum.

Nan Tian, sérfræðingur hjá Sipri, segir hina fordæmalausu aukningu mega rekja til aukins óstöðugleika, sem hefur grafið undan friði og öryggi. Ríki heims séu nú að forgangsraða hermálum en hætta sé á að það leiði til vítahrings.

Bandaríkin og Kína verja langmestum fjármunum til hermála og af heildarupphæðinni má rekja 37 prósent til Bandaríkjanna og 12 prósent til Kína. Bandaríkin juku útgjöld sín til hermála um 2,3 prósent og Kínverjar um 6 prósent.

Þá jukust útgjöld Bandaríkjanna til rannsókna, þróunar og tilrauna um 9,4 prósent en Bandaríkjamenn eru sagðir hafa lagt sérstaka áherslu á að standa fremst þegar kemur að tæknilegri framþróun.

Rússland, Indland, Sádi Arabía og Bretland fylgja á hæla Bandaríkjanna og Kína. 

Útgjöld Rússa vegna hernmála jukust um 24 prósent milli 2022 og 2023 og hafa aukist um 57 prósent frá 2014, þegar Rússar innlimuðu Krímskaga. Rússar verja nú 16 prósent af heildarútgjöldum sínum til hermála, eða 5,9 prósent af landsframleiðslunni. 

Um er að ræða mestu hernaðarútgjöld ríkisins frá falli Sovétríkjanna.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×