Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um að á sama tíma og tilkynningum um alvarleg ofbeldisbrot til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fjölgar, fækkar lögreglumönnum á svæðinu. Evrópskir staðlar segja til um að hér eigi að vera 3,3 lögreglumenn á hverja þúsund íbúa en á höfuðborgarsvæðinu eru þeir 1,2. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir að miðað við það vanti fimm hundruð lögreglumenn.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri tekur undir þessar áhyggjur en bendir á að jákvæð teikn séu á lofti.
„Það þarf að styrkja lögregluna í landinu en til þess þurfum við að fá menntaða lögreglumenn. Þannig að við erum að útskrifa núna um það bil áttatíu á ári. Þannig það fjölgar hratt þegar þessi fjölgun kemur út í liðin og þeim þarf auðvitað að fylgja fjármagn,“ segir Sigríður Björk.
Fleiri tilkynningar ekki það sama og fleiri brot
Hún bendir á að þrátt fyrir að tilkynningum um alvarleg ofbeldisbrot fjölgi þýði það ekki endilega að brotin séu að verða fleiri.
„Við þurfum líka að horfa á það að við erum að hvetja fólk til að kæra. Ef við horfum til dæmis á heimilisofbeldisverkefnin og hvernig við höfum breytt verklaginu þar. Þegar við hófum nýtt verklag fyrir áratug var tuttugu prósent tilkynntra ofbeldisbrota heimilisofbeldismál. En nú eru þau í kringum helmingur af tilkynntum brotum. Þannig þetta eru líka fleiri tilkynningar, ekki endilega fjölgun glæpa,“ segir Sigríður Björk.
Höfuðborgarsvæðið sérstaklega undirmannað
Það þurfi klárlega að fjölga lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu.
„Það þarf að fjölga lögreglu hlutfallslega vegna fjölgunar íbúa og þá er höfuðborgarsvæðið sérstaklega undirmannað. Þannig það þarf að fjölga þar, klárlega,“ segir Sigríður Björk.