Eitthvað var um útköll vegna ölvunar í nótt og var einn ökumaður stöðvaður af lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu nú í dag.
Þar segir einnig að tilkynnt hafi verið um þjófnað í miðborginni og um líkamsárás. Einn er grunaður í málinu en hann var farinn af vettvangi þegar lögregla kom. Sá sem ráðist var á var með minniháttar áverka.
Slagsmál ungmenna
Þá kemur fram að til lögreglustöðvar í Breiðholti og Kópavogi hafi verið tilkynnt um slagsmál. Ekki kemur fram hvar þau voru en í dagbók lögreglu segir að gerendur hafi verið farnir af vettvangi en handteknir stuttu síðar. Alls voru fjórir handteknir og fluttir á lögreglustöð. Vegna aldurs þeirra er málið unnið með barnavernd. Allir voru þeir látnir lausir eftir spjall á lögreglustöð. Sá sem þeir réðust á er ekki talinn mikið slasaður.
Þá hafði lögreglan einnig afskipti af ökumanni sem ók á 153 kílómetrum á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund.