Barcelona á í fjárhagserfiðleikum og þarf að skera niður. Lewandowski er á góðum launum og samkvæmt The Athletic gæti Barcelona selt pólska framherjann til að spara.
Lewandowski kom til Barcelona frá Bayern München fyrir síðasta tímabil. Hann skoraði 33 mörk í öllum keppnum á síðasta tímabili og er kominn með 23 mörk á þessu tímabili. Pólverjinn skoraði þrennu þegar Barcelona sigraði Valencia, 4-2, á mánudaginn.
Í frétt The Athletic kemur fram að aðeins þrír í leikmannahópi Barcelona séu ósnertanlegir og verði ekki seldir, sama hvað. Þetta eru Lamine Yamal, Pau Cubarsi og Gavi sem eru allir uppaldir hjá félaginu.
Í síðustu viku snerist Xavi hugur og hætti við að hætta sem knattspyrnustjóri Barcelona eftir tímabilið.
Barcelona er í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 73 stig, ellefu stigum á eftir toppliði Real Madrid. Næsti leikur liðsins er gegn Girona á laugardaginn.