Lífið

Hljóm­borðs­leikari ELO fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Richard Tandy á tónleikum í Hyde Park í London árið 2014.
Richard Tandy á tónleikum í Hyde Park í London árið 2014. Getty

Richard Tandy, hljómborðsleikari bresku sveitarinnar Electric Light Orchestra (ELO), er látinn, 76 ára að aldri.

Jeff Lynne, annar stofnenda sveitarinnar, greindi frá andláti Tandy á samfélagsmiðlum í gær. Þar sagði hann Tandy hafa verið „stórkostlegan tónlistarmann og vin“.

Tandy gekk til liðs við ELO árið 1971 sem bassaleikari, ári eftir að Lynne, Ron Wood og trommarinn Bev Bevan stofnuðu sveitina í Birmingham. Hann varð síðar hljómborðsleikari sveitarinnar allt þar til að Lynne leysti hana upp árið 1986.

Tandy varð svo eini liðsmaður sveitarinnar sem sneri aftur með Lynne árið 2001 þegar þeir gáfu út plötuna Zoom undir nafni ELO. Bítlarnir Ringo Starr og George Harrison spiluðu einnig undir á þeirri plötu. 

Tandy og Lynne komu svo aftur saman árið 2012 til að taka upp sjónvarpsþátt með tónleikaútgáfu laga ELO. Þá leiddu þeir aftur saman hesta sína árið 2014 þegar þeir komu fram undir nafninu Jeff Lynne’s Electric Light Orchestra og spiluðu á tónleikum í Hyde Park í London árið 2014. Tandy kom síðast fram á tónleikum í New York árið 2016.

Meðal þekktra laga ELO eru Evil Woman og Mr Blue Sky.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.