„Berst nokkuð reglulega til landsins með innfluttum vörum,“ segir Matthías Alfreðsson skordýrafræðingur stofnunarinnar í pósti til fréttastofu.
Á vef Náttúrufræðistofnunar segir um páfiðrildi að þau séu útbreidd í Evrópu allt norður til miðbiks Skandinavíu og suður til Miðjarðarhafs, austur um tempruð belti Asíu til Japans; Færeyjar.
Þá kemur fram að fiðrildin hafi fundist víða á höfuðborgarsvæðinu en einnig í Þorlákshöfn, á Skagaströnd og Siglufirði. Engin dæmi eru um að þau hafi borist til landsins á eigin vængjum með vindum. Fyrsti skráði fundurinn er frá árinu 1938 en flest hafa fundist síðustu fjóra áratugina. Flest fundust sjö árið 1996.

Fram kemur að flest hafi þau borist síðsumars eða á venjulegum flugtíma tegundarinnar en páfiðrildin koma úr púpum sínum eftir miðjan júlí og nær fjöldinn hámarki fyrri hluta ágúst.
Í umfjöllun Náttúrufræðistofnunar segir að þegar páfiðrildin berist hingað til lands, og til nágrannalanda okkar, finnist þau ekki síst í nágrenni skipahafna eða í vöruskemmum.
„Páfiðrildi eru stór og einkar falleg fiðrildi með mikið vænghaf og einkennandi litmynstur á ryðrauðum vængjum. Hringlaga blettir fanga augu áhorfandans, einn á hverjum væng, með bláum lit svo helst minnir á augu eða bletti á fögru stéli páfuglshana. Af þeirri samlíkingu er heiti fiðrildisins dregið á íslensku og fleiri tungum,“ segir að lokum.
Nánar er hægt að kynna sér páfiðrildið hér á vef Náttúrufræðistofnunar.