Sport

Ný­liðarnir gerðu milljónarveðmál: „Hann átti ekki að segja neinum“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nabers (t.h.) og Daniels voru hressir á nýliðavalinu, enda voru þeir báðir á meðal þeirra tíu fyrstu sem voru valdir.
Nabers (t.h.) og Daniels voru hressir á nýliðavalinu, enda voru þeir báðir á meðal þeirra tíu fyrstu sem voru valdir. Getty

Tveir nýliðanna fyrir komandi leiktíð í NFL-deildinni í amerískum fótbolta hafa gert með sér veðmál um það hvor verði valinn nýliði ársins, og það upp á enga smáfjárhæð.

Jayden Daniels og Malik Nabers voru liðsfélagar í LSU-háskólanum og virðast báðir kokhraustir fyrir komandi leiktíð.

Þeir félagar unnu vel saman í LSU.Getty

Daniels er leikstjórnandi sem var valinn annar í nýliðavalinu af Washington Commanders. Aðeins Caleb Williams var valinn á undan honum, en hann fór fyrstur til Chicago Bears. Félagi Daniels, Nabers, var valinn sjötti í nýliðavalinu af New York Giants.

Nabers er spennandi útherji, en aðeins einn útherji var valinn á undan honum, Marvin Harrison Jr sem fór til Arizona Cardinals.

Nabers tók því við sendingum frá Daniels með LSU-liðinu síðasta vetur en nú er spurning hvort peningasending berist í lok tímabilsins.

Orðrómar um veðmál á milli þeirra hafa verið uppi síðustu daga og Daniels staðfesti það í hlaðvarpi í vikunni. Muni annar þeirra vera valinn nýliði ársins mun hinn þurfa að greiða honum tíu þúsund bandaríkjadali, tæplega eina og hálfa milljón króna.

„Hann átti að segja neinum frá þessu! Við erum með smá veðmál. Tíkall upp á það hver verður nýliði ársins,“ segir Daniels meðal annars.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×