Frumvarp sem skilgreinir félagasamtök og frjálsa fjölmiðla sem útsendara erlendra ríkja ef þeir fá meira en fimmtung tekna sinna erlendis frá hefur vakið hörð viðbrögð í Georgíu. Þau þykja í anda rússneskra laga sem stjórnvöld í Kreml hafa ítrekað notað til þess að bæla niður andóf og þagga niður í fjölmiðlum. Því hafa gagnrýnendur georgíska frumvarpsins uppnefnt það „rússnesku lögin“.
Tugir þúsunda manna mótmæltu við þinghúsið í höfuðborginni Tíblisi um helgina. Mótmælin héldu áfram í nótt og fram á morgun þrátt fyrir að lögregla hafi dreift mótmælendum í gær. Þegar þingmenn stjórnarflokksins Georgíska draumsins, sem er hallur undir Rússa, mættu hrópuðu mótmælendur „þrælar“ og „Rússar“ að þeim, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Þingmennirnir létu það ekki á sig fá. Þegar málið var tekið fyrir á fundi þingnefndar afgreiddu stjórnarþingmenn það á 67 sekúndum. Að óbreyttu gengur frumvarpið til þriðju og síðustu umræðu á morgun. Mótmælendur hafa heitið því að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.
Myndir og myndbönd af átökum mótmælenda og lögreglumanna hafa birst á samfélagsmiðlum í morgun. Mótmælendur hafa áður lýst því hvernig þeir hafi verið beittir ofbeldi og sætt ógnunum lögreglu undanfarnar vikur. Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn hafa lýst áhyggjum af framferði georgískra yfirvalda í garð mótmælendanna.
#Georgia 🇬🇪 today:
— Thomas van Linge (@ThomasVLinge) May 13, 2024
As the GD parliament has passed the Foreign Agents Law in a legal reading, students strike across the country. Riot police crack down on the protests, surrounding and beating protesters. pic.twitter.com/YFeLFoYfV9