Fram hefur komið að maðurinn á ættir að rekja til Möltu. Karlmaðurinn er auk þess að vera harðduglegur og vænn sagður afar nægjusamur. Því til stuðnings hefur hann búið í bílskúr sem hann hefur leigt af karlmanni í Reykholti.
Leigusalinn er einn fjögurra meintra gerenda í málinu. Hann er á áttræðisaldri og hefur eins og svo margir á svæðinu komið að garðyrkju í gegnum tíðina. Tæplega þrítug dóttir hans er í haldi og sömuleiðis kærasti hennar sem er rúmlega þrítugur. Þá er þriðji karlmaðurinn í haldi sagður bróðir kærastans.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er brotaþoli talinn í ljósi nægjusemi sinnar hafa komið sér upp einhverjum sjóði. Fjögur handteknu eru grunuð um að hafa svipt manninn frelsinu, beitt hann ofbeldi og reynt að kúga fé út úr manninum. Hluti af því ofbeldi sem þau eru grunuð um er að hafa flogið manninum úr landi eftir að hafa beitt hann líkamlegu ofbeldi. Þá hafi þau reynt að villa fyrir yfirmanni hans að maðurinn kæmist ekki til vinnu sökum veikinda.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var það einmitt áhyggjufullur yfirmaðurinn sem tilkynnti lögreglu áhyggjur sínar vegna fjarveru starfsmannsins. Fjarvera hans væri harla óvenjuleg enda maður sem sinnti vinnu sinni einkar vel.
Lögregla heldur þétt að sér spilunum við rannsókn málsins. Samfélagið í Reykholti og nærsveitum er slegið vegna atburðanna. Fjögur handteknu voru úrskurðuð í tveggja vikna gæsluvarðhald föstudaginn 10. maí. Þá var um að ræða framlengingu á fyrra varðhaldi.
Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is.