Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi skrifaði bók sem gefin var út sl. haust og fjallaði um hugrekki. Því hefur lengi verið haldið fram að við séum hugrökk þjóð en ég velti fyrir mér hvort okkur sé farið að förlast; séum jafnvel orðin leiðitöm.
Ég held að ástæðan sé sú að við höfum leyft samfélagsmiðlunum að ná tökum á okkur og gera okkur upp skoðanir á öllu og engu. Þeir svipta okkur hugrekkinu til að vera við sjálf og standa með því sem við trúum á og teljum rétt.
Svo eru það skoðanakannanirnar. Við erum mötuð af upplýsingum sem eru mjög misjafnlega vel túlkaðar og fram settar. Það kemur t.d. sjaldnast fram hvernig könnunin var framkvæmd, hvernig úrtakið var fengið og hversu margir höfðu gert um hug sinn. Þessar “niðurstöður” eru svo notaðar þegar sjónvarpsstöðvarnar og ljósvakamiðlarnir velja til sín viðmælendur meðal frambjóðenda.
Við teljum okkur í dag búa í lýðræðisþjóðfélagi þar sem pláss er fyrir allar skoðanir, ekki síst á miðlum landsins. Yfirstandandi kosningabarátta hefur leitt annað í ljós og rótgrónir fjölmiðlar hafa sýnt ótrúlega hlutdrægni – meiri en ég hef séð lengi. En þeir hafa snúð við blaðinu sem er gott.
Það er auðvelt að detta í þá gryfju að láta þetta allt fara í taugarnar á sér og sjá ekki ljósið. Ég veit að næst þegar ég hitti Höllu Tómasdóttir mun hún breiða, brosandi út faðminn og biðja mig um að líta upp og vera bjartsýn. Hún mun hvetja mig til að horfa á það jákvæða. Hvetja mig til að vera hugrökk og sjá glasið hálf fullt.
Þannig forseti verður hún. Hún mun hvetja okkur áfram til góðra verka og taka á dagskrá mikilvæg mál. Halla mun leggja sitt á vogaskálarnar varðandi mál sem snerta jafnrétti, umhverfismál og velferð komandi kynslóða og koma þeim á dagskrá. Á erfiðum stundum mun hún á sinn einstaka, hlýja og heillandi hátt stappa í okkur stálinu og þjappa þjóðinni saman.
Þessa dagana finnum við sem styðjum Höllu Tómasdóttur mikinn meðbyr og með honum eykst áhugi fjölmiðla – sem betur fer.
Ég hlakka til að fylgjast með málefnalegri umræðu þessar síðustu vikur fram að kosningum og halda áfram að leggja mitt á vogarskálarnar svo Íslendingar fái þann forseta sem þeir eiga skilið.
Höfundur er stuðningsmaður Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda.