Uppgjörið og viðtöl: Valur - Afturelding 27-29 | Mosfellingar í úrslit Andri Már Eggertsson skrifar 15. maí 2024 21:14 vísir/hulda margrét Afturelding vann tveggja marka sigur gegn Val í N1-höllinni 27-29. Frábær síðari hálfleikur Mosfellinga tryggði þeim farseðilinn í úrslit þar sem liðið mætir FH. Valsmenn voru með bakið upp við vegg þegar Mosfellingar mættu í N1-höllina. Heimamenn byrjuðu frábærlega og náðu strax frumkvæðinu og komust fimm mörkum yfir 8-3 sem varð til þess að Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, tók leikhlé. Ástæðan fyrir góðri byrjun Vals var markmaður liðsins Björgvin Páll Gústavsson sem dró tennurnar úr gestunum. Á fyrstu níu mínútunum varði Björgvin Páll sjö skot og var með 78 prósent markvörslu. Björgvin varði mikið af dauðafærum og varði einnig þrjú víti frá Birgi Steini Jónssyni, Árna Braga Eyjólfssyni og síðan seinna í fyrri hálfleik varði hann víti frá Blæ Hinrikssyni. Eftir því sem leið á fyrri hálfleik fór að ganga betur hjá gestunum. Mosfellingar gerðu fjögur mörk í röð og minnkuðu forskot Vals minnst niður í tvö mörk. Viktor Sigurðsson, leikmaður Vals endaði síðan á að skora síðasta mark fyrri hálfleiks og kom Val þremur mörkum yfir 14-11. Afturelding lét mark Viktors ekki slá sig út af laginu. Gestirnir byrjuðu síðari hálfleik frábærlega og gerðu fyrstu þrjú mörkin og jöfnuðu. Brynjar Vignir Sigurjónsson, markmaður Aftureldingar, lokaði markinu og varði nánast allt sem kom á markið. Afturelding var sterkari á svellinu síðustu tíu mínúturnar. Það var nánast allt inni hjá gestunum og Björgvin Páll sem hafði verið frábær í fyrri hálfleik varði varla bolta á tímabili í seinni hálfleik. Afturelding vann að lokum tveggja marka sigur 27-29 og mætir FH í úrslitum. Atvik leiksins Björgvin Páll Gústavsson gerði ansi klaufaleg mistök þegar að tæplega 50 sekúndur voru eftir þegar að Valur var tveimur mörkum undir. Björgvin kastaði boltanum frá sér og þrátt fyrir að Afturelding hafði ekki skorað í sókninni fór dýrmætur tími af klukkunni og leikurinn gott sem búinn. Stjörnur og skúrkar Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, var stjarna í fyrri hálfleik og varði eins og berserkur og Valur var þremur mörkum yfir í hálfleik 14-11. Í seinni hálfleik var Björgvin skúrkur þar sem hann varði varla skot og var skugginn af sjálfum sér. Með heilsteyptari frammistöðu hefði Valur sennilega ekki tapað. Brynjar Vignir Sigurjónsson og Jovan Kukobat, markmenn Aftureldingar, voru frábærir í kvöld. Brynjar sá til þess að Afturelding var inni í leiknum í fyrri hálfleik og var öflugur í upphafi síðari hálfleiks. Kukobat varði síðan mikilvæga bolta undir lokin. Dómarar leiksins Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæmdu leikinn. Það voru nokkrar sérstakar brottvísanir og línan var stundum óljós. Þeir fá 6 í einkunn fyrir sitt framlag. Stemning og umgjörð Á vorin eru Valsmenn ofdekraðir af árangri félagsins. Miðað við að það var allt undir hjá Val hefðu fleiri átt að mæta þar sem það var mikið laust í stúkunni. Ég vona þó að stuðningsmenn Vals hafi verið að spara sig fyrir úrslitaeinvígið í Evrópubikarnum þar sem Valur fær Olympiacos í heimsókn á sunnudaginn. „Verðum fúlir í klukkutíma og svo erum við að fara í stærsta leik vetrarins“ Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var afar svekktur eftir tap kvöldsins og þá staðreynd að Íslandsmótinu er lokið hjá Val. „Við vorum frábærir í vörn og Björgvin var frábær í markinu. Í seinni hálfleik náðum við ekki að spila góða vörn og þá hætti Björgvin að verja. Við hefðum átt að hvíla hann í nokkrar mínútur en þeir voru örlítið betri og náðu að klára þetta,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við Vísi eftir leik. Afturelding spilaði töluvert betur í seinni hálfleik og Óskar var ósáttur með varnarleik Vals. „Við fórum að spila 5-1 vörn og hefðum átt að hrista meira upp í þessu og fara í 4-2 fyrr. Eina sem var gott var að við vorum að skora mikið framan af en eftir það datt botninn úr þessu.“ Valur mætir Olympiacos á laugardaginn í Evrópubikarnum og Óskar taldi það ekki vera erfitt fyrir liðið að rífa sig upp eftir tap kvöldsins. „Ég vil óska Aftureldingu til hamingju og þetta verður hörkueinvígi milli Aftureldingar og FH. Við höfum ekki tíma til þess að vera fúlir lengi. Við verðum bara að taka stöðuna á þeim sem eru meiddir, fá smá nudd og fá okkur að borða. Við verðum fúlir í klukkutíma og svo erum við að fara í stærsta leik vetrarins.“ Magnús Óli Magnússon og Róbert Aron Hostert voru báðir tæpir í leiknum og spiluðu lítið. „Róbert fékk aðeins í hálsinn og ökklann, Magnús fékk högg á höfuðið og Ísak var aðeins meiddur í kálfanum,“ sagði Óskar Bjarni að lokum. Olís-deild karla Valur Afturelding
Afturelding vann tveggja marka sigur gegn Val í N1-höllinni 27-29. Frábær síðari hálfleikur Mosfellinga tryggði þeim farseðilinn í úrslit þar sem liðið mætir FH. Valsmenn voru með bakið upp við vegg þegar Mosfellingar mættu í N1-höllina. Heimamenn byrjuðu frábærlega og náðu strax frumkvæðinu og komust fimm mörkum yfir 8-3 sem varð til þess að Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, tók leikhlé. Ástæðan fyrir góðri byrjun Vals var markmaður liðsins Björgvin Páll Gústavsson sem dró tennurnar úr gestunum. Á fyrstu níu mínútunum varði Björgvin Páll sjö skot og var með 78 prósent markvörslu. Björgvin varði mikið af dauðafærum og varði einnig þrjú víti frá Birgi Steini Jónssyni, Árna Braga Eyjólfssyni og síðan seinna í fyrri hálfleik varði hann víti frá Blæ Hinrikssyni. Eftir því sem leið á fyrri hálfleik fór að ganga betur hjá gestunum. Mosfellingar gerðu fjögur mörk í röð og minnkuðu forskot Vals minnst niður í tvö mörk. Viktor Sigurðsson, leikmaður Vals endaði síðan á að skora síðasta mark fyrri hálfleiks og kom Val þremur mörkum yfir 14-11. Afturelding lét mark Viktors ekki slá sig út af laginu. Gestirnir byrjuðu síðari hálfleik frábærlega og gerðu fyrstu þrjú mörkin og jöfnuðu. Brynjar Vignir Sigurjónsson, markmaður Aftureldingar, lokaði markinu og varði nánast allt sem kom á markið. Afturelding var sterkari á svellinu síðustu tíu mínúturnar. Það var nánast allt inni hjá gestunum og Björgvin Páll sem hafði verið frábær í fyrri hálfleik varði varla bolta á tímabili í seinni hálfleik. Afturelding vann að lokum tveggja marka sigur 27-29 og mætir FH í úrslitum. Atvik leiksins Björgvin Páll Gústavsson gerði ansi klaufaleg mistök þegar að tæplega 50 sekúndur voru eftir þegar að Valur var tveimur mörkum undir. Björgvin kastaði boltanum frá sér og þrátt fyrir að Afturelding hafði ekki skorað í sókninni fór dýrmætur tími af klukkunni og leikurinn gott sem búinn. Stjörnur og skúrkar Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, var stjarna í fyrri hálfleik og varði eins og berserkur og Valur var þremur mörkum yfir í hálfleik 14-11. Í seinni hálfleik var Björgvin skúrkur þar sem hann varði varla skot og var skugginn af sjálfum sér. Með heilsteyptari frammistöðu hefði Valur sennilega ekki tapað. Brynjar Vignir Sigurjónsson og Jovan Kukobat, markmenn Aftureldingar, voru frábærir í kvöld. Brynjar sá til þess að Afturelding var inni í leiknum í fyrri hálfleik og var öflugur í upphafi síðari hálfleiks. Kukobat varði síðan mikilvæga bolta undir lokin. Dómarar leiksins Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæmdu leikinn. Það voru nokkrar sérstakar brottvísanir og línan var stundum óljós. Þeir fá 6 í einkunn fyrir sitt framlag. Stemning og umgjörð Á vorin eru Valsmenn ofdekraðir af árangri félagsins. Miðað við að það var allt undir hjá Val hefðu fleiri átt að mæta þar sem það var mikið laust í stúkunni. Ég vona þó að stuðningsmenn Vals hafi verið að spara sig fyrir úrslitaeinvígið í Evrópubikarnum þar sem Valur fær Olympiacos í heimsókn á sunnudaginn. „Verðum fúlir í klukkutíma og svo erum við að fara í stærsta leik vetrarins“ Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var afar svekktur eftir tap kvöldsins og þá staðreynd að Íslandsmótinu er lokið hjá Val. „Við vorum frábærir í vörn og Björgvin var frábær í markinu. Í seinni hálfleik náðum við ekki að spila góða vörn og þá hætti Björgvin að verja. Við hefðum átt að hvíla hann í nokkrar mínútur en þeir voru örlítið betri og náðu að klára þetta,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við Vísi eftir leik. Afturelding spilaði töluvert betur í seinni hálfleik og Óskar var ósáttur með varnarleik Vals. „Við fórum að spila 5-1 vörn og hefðum átt að hrista meira upp í þessu og fara í 4-2 fyrr. Eina sem var gott var að við vorum að skora mikið framan af en eftir það datt botninn úr þessu.“ Valur mætir Olympiacos á laugardaginn í Evrópubikarnum og Óskar taldi það ekki vera erfitt fyrir liðið að rífa sig upp eftir tap kvöldsins. „Ég vil óska Aftureldingu til hamingju og þetta verður hörkueinvígi milli Aftureldingar og FH. Við höfum ekki tíma til þess að vera fúlir lengi. Við verðum bara að taka stöðuna á þeim sem eru meiddir, fá smá nudd og fá okkur að borða. Við verðum fúlir í klukkutíma og svo erum við að fara í stærsta leik vetrarins.“ Magnús Óli Magnússon og Róbert Aron Hostert voru báðir tæpir í leiknum og spiluðu lítið. „Róbert fékk aðeins í hálsinn og ökklann, Magnús fékk högg á höfuðið og Ísak var aðeins meiddur í kálfanum,“ sagði Óskar Bjarni að lokum.