Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna klukkan sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Ég byrja á því að knúsa manninn minn og svo förum við í það að vekja yngri strákana okkar og svo hefst kapphlaupið í það hver er fyrstur að ná sturtunni!
Mér finnst morgnarnir dásamlegir og vil helst hafa góðan tíma og geta átt rólega stund við morgunverðarborðið yfir kaffibolla með manninum mínum og strákunum okkar fjórum áður en allir halda út í daginn.“
Síðasta hláturskast var þegar….?
„Það var nú bara í gær þegar ég kom mér enn einu sinni í vandræðilegar aðstæður vegna andlitsblindu minnar.
Maðurinn minn benti mér góðfúslega á þessi mistök sem ég gerði sem uppskar mikinn hlátur okkar beggja. En ég er með andlitsblindu á hæsta stigi og kem mér mjög reglulega í vandræði vegna þess.“
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Nýja smáforritið sem við vorum að gefa út, SheSleep á hug minn allan þessa dagana. Þetta er fyrsta svefn smáforrit í heimi sem er eingöngu sniðið að konum og þeirra þörfum og við ætlum okkur stóra hluti með þetta verkefni og hugsjónin er skýr, að hjálpa konum um allan heim að sofa betur.
Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni og trúi því að við getum raunverulega haft jákvæð áhrif á svefn og lifsgæði kvenna sem ég svo sannarlega brenn fyrir.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Starfið mitt er fjölbreytt og fáir dagar eru eins. Suma daga er ég að hitta skjólstæðinga á stofunni minni, aðra er ég að heimsækja fyrirtæki og fræða starfsfólk um svefn og svefnvanda og svo fara dagar í rannsóknir, kennslu og þróun og vinnu við SheSleep.
Það er nauðsynlegt fyrir mig að skipuleggja mig vel og Munum dagbókin mín fer með mér hvert sem ég fer.
Ég er frekar gamaldags þegar kemur að skipulagi og vill hafa þetta allt skriflegt í dagbókinni minni; fundi bóka ég stundum í calander en þeir fara alltaf líka í dagbókina, þar skrifa ég í raun niður öll mín verkefni, bæði vinnutengd og persónuleg.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er oftast frekar kvöldsvæf og yfirleitt sofnuð fyrir klukkan ellefu á kvöldin. Mér finnst best þegar ég næ því og fæ þá mínar átta klukkustundir af svefni.