Sport

Ís­land vann þrjú gull og fjögur silfur á NM í frjálsum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir vann bæði gull og silfur á Norðurlandamótinu um helgina.
Aníta Hinriksdóttir vann bæði gull og silfur á Norðurlandamótinu um helgina. FRÍ

Ísland komst sjö sinnum á verðlaunapall á Norðurlandameistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fór í Malmö um helgina. Sex af sautján íslenskum keppendum á mótinu unnu til verðlauna.

Daníel Ingi Egilsson, Guðni Valur Guðnason og Aníta Hinriksdóttir urðu öll Norðurlandameistarar og þau Aníta, Birta María Haraldsdóttir, Sindri Hrafn Guðmundsson og Erna Sóley Gunnarsdóttir unnu öll silfur.

Daníel Ingi Egilsson úr FH varð Norðurlandameistari í langstökki. Hann stökk 8,21 metra og bætti þrjátíu ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar um 21 sentimetra. Með þessu stökki náði hann lágmarki á EM sem fram fer í Róm 7.-12. júní.

Í frétt á heimasíðu Frjálsíþróttsambandsins kemur fram að þessi góði árangur gefur Daníel einnig möguleika á sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar en lágmarkið er 8,27 metrar. Daníel jafnaði tólfta besta árangur í heiminum og á því einnig möguleika á sæti á leikana í gegnum heimslistann.

Guðni Valur Guðnason úr ÍR varð Norðurlandameistari í kringlukasti karla með kasti upp á 60,71 metra.

Aníta Hinriksdóttir úr FH varð Norðurlandameistari í 1500 metra hlaupi og hljóp á tímanum 4:19,14 mín. Hún vann einnig til silfurverðlauna í 800 metra hlaupi og hljóp á tímanum 2:05,42 mín.

Birta María Haraldsdóttir úr FH bætti sitt persónulega met er hún stökk 1,87 metra í hástökki og hafnaði í öðru sæti. Hún er nú aðeins einum sentimetra frá 34 ára gömlu Íslandsmeti Þórdísar Lilju Gísladóttur.

Sindri Hrafn Guðmundsson úr FH var í öðru sæti í spjótkasti með kast upp á 78,82 metra og Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) var í öðru sæti í kúluvarpi með kast upp á 17,20 metra.

Hilmar Örn Jónsson úr FH komst líka nálægt verðlaunapallinum þegar hann varð fjórði í sleggjukasti með kast upp á 71,5 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×