Lífið

Prinsinn hélt blautt garðpartý

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Prinsinn var hrókur alls fagnaðar í teitinu.
Prinsinn var hrókur alls fagnaðar í teitinu. Yui Mok/AP

Vilhjálmur Bretaprins bauð í blautt garðpartý við Buckingham höll nú síðdegis í nafni föður síns Karls konungs. Þangað fengu boð þúsundir gesta sem hafa unnið sjálfboðaliðastörf og er um að ræða þakklætisvott af hálfu konungsfjölskyldunnar. Veðrið lék ekki við gesti en regnhlífar komu í veg fyrir að gestir yrðu votir.

Næsta kynslóð bresku konungsfjölskyldunnar var fyrirferðarmikil í teitinu, að því er segir í umfjöllun People. Má þar nefna prinsessurnar Beatrice og Eugenie, Peter Phillips og Zöru Tindall, auk eiginmannsins hennar Mike Tindall.

Fram kemur í umfjöllun miðilsins að Katrín Middleton hertogaynja af Wales og eiginkona Vilhjálms hafi ekki látið sjá sig en hún er nú í krabbameinsmeðferð líkt og frægt er. Ekki er um að ræða fyrsta garðpartý sumarsins en Karl konungur og Kamilla drottning héldu það fyrsta þann 8. maí síðastliðinn og annað þann 15. maí.

Garðpartýin hafa verið hefð í fjölskyldunni síðan á 19. öld en fyrsta slíka fór fram um árið 1860. Yfir þrjátíu þúsund gestir fá boð á hverju ári í slíkt teiti en fram kemur á vef fjölskyldunnar að um 27 þúsund tebollar séu veittir gestum og ennfremur fullyrt að tuttugu þúsund kökusneiðar séu innbyrtar við tilefnin.

Vilhjálmur ræddi við lýðinn. Yui Mok/AP





Fleiri fréttir

Sjá meira


×