Erlent

Saka Ísraela um að mis­beita lögum til þess að stöðva streymi frá Gasa

Kjartan Kjartansson skrifar
Skjáskot úr vefmyndavélinni sem Ísraelar lögðu hald á. Hún sýnir norðanverða Gasa. AP segist fylgja öllum lögum og reglum Ísraela sem banna útsendingar frá herflutningum.
Skjáskot úr vefmyndavélinni sem Ísraelar lögðu hald á. Hún sýnir norðanverða Gasa. AP segist fylgja öllum lögum og reglum Ísraela sem banna útsendingar frá herflutningum. AP

Ísraelsk stjórnvöld slökktu á vefmyndavél AP-fréttastofunnar sem hefur sýnt Gasa í beinu streymi og lagði hald á hana í gær. AP sakar Ísraela um að misnota ný fjölmiðlalög sem voru nýlega notuð til þess að banna katörsku fréttastofuna al-Jazeera.

Myndavélin var staðsett í ísraelska bænum Sderot og var beint að norðurhluta Gasa. Ísraelar sökuðu AP-fréttastofuna um að brjóta fjölmiðlalögin vegna þess að al-Jazeera, sem var bannað að starfa á svæðinu á grundvelli laganna, er einn þúsunda viðskiptavina AP sem fá streymi frá myndavélinni.

Fjöldi fjölmiðlafyrirtækja fordæmdi haldlagninguna. Fréttastjóri AFP-fréttaveitunnar sagði aðgerðirnar mikið áhyggjuefni og skýra árás á fjölmiðlafrelsi. Bandaríkjastjórn hvatti ísraelsk stjórnvöld jafnframt til þess að láta undan sem þau og gerðu seinna í gær. Vefmyndavélin var komin aftur í gagnið snemma í morgun, að sögn AP.

Í yfirlýsingu sem fréttastofan sendi frá sér í gær fordæmdi Lauren Easton, varaforseti samskiptamála AP, harðlega aðgerðir ísraelskra stjórnvalda.

„Lokunin byggðist ekki á efni streymisins heldur á misnotkun ísraelsku ríkisstjórnarinnar á nýjum lögum landsins um erlenda ljósvakamiðla,“ sagði Easton.

Ekki hugnaðist þó öllum í Ísrael aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Yair Lapid, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, kallaði þær „brjálæði“.

Shlomo Karhi, fjarskiptaráðherra Ísraels, sagði lögin skýr um að stjórnvöld hefðu heimild til þess að leggja hald öll tæki sem væru notuð til þess að afhenda al-Jazeera efni.

„Við ætlum að halda áfram að grípa til skjótra aðgerða gegn hverjum þeim sem reynir að skaða hermenn okkar og öryggi ríkisins, jafnvel þótt þér líki það ekki,“ sagði Karhi við Lapid á samfélagsmiðlinum X.


Tengdar fréttir

Búnaður Al Jazeera gerður upptækur og miðillinn í bann

Hluti útsendingarbúnaðar katarska miðilsins Al Jazeera var gerður upptækur þegar lögregla réðst inn á hótelherbergi útsendara í Jerúsalem í dag. Miðlinum hefur verið bannað að starfa í landinu í að minnsta kosti 45 daga. 

Ísraelsmenn vísa fréttamönnum á dyr

Ríkisstjórn Ísraels ákvað í dag að reka katörsku sjónvarpsstöðina Al Jazeera úr landi. Forsætisráðherra Ísraels segir fréttamenn hennar stríðsæsingamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×