Erlent

Allsherjarsigur gegn Hamas ó­lík­legur

Samúel Karl Ólason skrifar
Beðið eftir bílum með neyðarbirgðir á Gasa.
Beðið eftir bílum með neyðarbirgðir á Gasa. AP/Abdel Kareem Hana

Þrátt fyrir umfangsmikinn hernað á Gasaströndinni berjast vígamenn Hamas-samtakanna enn af krafti gegn ísraelska hernum. Þá skjóta Hamas-liðar enn eldflaugum að Ísrael en ráðamenn í Ísrael og í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að Ísraelar geti ekki náð markmiðum ríkisstjórnar Benjamíns Netanjahú um algeran sigur gegn hryðjuverkasamtökunum.

Þúsundir óbreyttra borgara liggja í valnum eftir að árásir Ísraela hófust á Gasaströndina í október. Þær hófust í kjölfar umfangsmikilla árása Hamas-liða og annarra vígamanna á suðurhluta Ísrael þann 7. október.

Rúmlega 1.200 manns féllu í þessum árásum og vígamenn tóku um 250 gísla til Gasastrandarinnar. Fleiri en hundrað eru enn í haldi, eftir því sem best er vitað.

Árásir Ísraela á Gasa hafa komið verulega niður á íbúum svæðisins. Mannúðarástandið á Gasaströndinni fer sífellt versnandi og stórir hluta borga og bæja svæðisins eru í rúst.

Deilt í Ísrael

Í Ísrael hafa andstæðingar Netanjahús líkt ástandinu við Bandaríkin og stríð ríkisins í Víetnam og í Afganistan, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Innrásin hafi orðið að mannskæðum skæruhernaði og hafa áhyggjurnar leitt til deilna í stríðsráði Ísrael.

Meðal annars hefur Jóav Gallant, varnarmálaráðherra, krafist þess að Netanjahú leggi fram langtímaáætlun um Gasaströndina og baráttuna gegn Hamas.

Gallant og Benny Gantz, sem situr einnig í stríðsráðinu, er fyrrverandi varnarmálaráðherra og pólitískur andstæðingur Netanjahús, óttast kostnaðarsama hersetu á Gasaströndinni en eru einnig ósammála því að yfirgefa svæðið alfarið aftur í höndum Hamas-liða.

Sjá einnig: Gantz hótar að segja af sér vegna ó­sættis við Netanjahú

Samkvæmt frétt Politico áætla leyniþjónustur Bandaríkjanna að um þrjátíu til 35 prósent af þeim vígamönnum sem tilheyrðu Hamas fyrir 7. október hafi fallið í átökum við Ísraela. Þá óttast ráðamenn í Bandaríkjunum að þúsundir manna hafi gengið til liðs við Hamas á undanförnum mánuðum.

AP birti meðfylgjandi myndband af ísraelskum hermönnum í Rafah og Jabaliya á Gasaströndinni í gær.

Þar að auki er talið að stór hluti gangakerfis Hamas, sem finna má víðsvegar undir Gasaströndinni, sé enn ósnortinn. Um 65 prósent gangnanna eru talin í heilu lagi.

Göngin nota Hamas-liðar til að flytja vopn og birgðir. Göngin eru oft búin ljósavélum, loftræstingu, vatnsleiðslum og birgðum að mat. Leiðtogar Hamas geta notað göngin til að fela sig og myndbönd sem Hamas birtir reglulega hafa sýnt vígamenn nota göngin til að komast aftan að ísraelskum hermönnum og sitja fyrir þeim.

Ísraelar hafa þjálfað sérstakar sveitir til að berjast í göngunum en það er gífurlega erfitt. Þau eru oftar en ekki þröng og lág. Einn vel vopnaður vígamaður getur varið göng lengi.

Meðal leiða sem Ísraelar hafa prófað á göngin er að reyna að fylla þau af sjó en það hefur ekki virkað nægilega vel, að mati forsvarsmanna hersins.

Sjá einnig: Dæla sjó í göng Hamas

Meðfylgjandi myndband var birt af Hamas í gær og sagt sýna átök í suðurhluta Rafah á Gasaströndinni. Sambærileg myndbönd eru reglulega birt af Hamas. Myndbandið getur vakið óhug lesenda.

Fjórar sviðsmyndir nefndar

Í grein AP eru taldar upp fjórar mismunandi sviðsmyndir fyrir framtíðina á Gasa. Ein þeirra er allsherjarsigur Ísraela. Netanjahú hefur heitið því að brjóta Hamas-samtökin á bak aftur og frelsa alla gíslana sem eru enn í haldi vígamanna. Hefur hann heitið því að sá sigur gæti náðst á nokkrum vikum.

Það þykir þó ólíklegt og til að tryggja að Hamas-stingi ekki aftur upp kollinum þyrftu Ísraelar að hernema Gasaströndina alfarið. Fjar-hægri bandamenn Netanjahús hafa lagt þetta til og kallað eftir því að Palestínumenn verði fluttir til annarra ríkja sem vilja taka við þeim og Gasaströndin verði endurbyggð fyrir gyðinga.

Flestir Ísraelar eru þó á móti þessu. Slíkt hernám yrði gífurlega kostnaðarsamt og gæti ekki borið árangur. Ísraelar höfðu til dæmis hernumið Gasaströndina á árum áður, þegar Hamas-samtökin voru stofnuð, og svipaða sögu er að segja frá suðurhluta Líbanon og stofnun Hezbollah.

Önnur sviðsmynd felur í sér takmarkað hernám en að stjórn Gasa yrði færð á hendur Palestínumanna sem tengdust ekki Hamas-samtökunum né Heimastjórn Palestínu á Vesturbakkanum. Þetta er eitthvað sem Netanjahú hefur lagt til og hefur hann gefið til kynna að Arabaríki gætu komið að því að stjórna Gasaströndinni og endurbyggja hana.

Engir Palestínumenn hafa þó stigið fram sem vilja vinna með Ísraelum, að hluta til vegna þess að leiðtogar Hamas hafa gefið til kynna að slíkir menn yrðu myrtir. Sérfræðingar segja AP að tilraunir til að efna til samband við slíka aðila hafi endað með ósköpum.

Þá hafa leiðtogar Arabaríkja þvertekið fyrir að þessi hugmynd komi til greina.

Þeir hafa aftur á móti tekið vel í hugmyndir Bandaríkjamanna sem ætlað er að binda enda á átök fyrir botni Miðjarðarhafs. Þær hugmyndir fela í sér að Heimastjórnin myndi stjórna Gasaströndinni með aðstoð vinveittra nágrannaríkja, eins og Sádi-Arabíu, en ráðamenn þar myndu bæta samskipti sín við Ísrael í skiptum fyrir aukna hernaðaraðstoð og mögulega aðstoð við að koma upp kjarnorkuverum.

Þessi áætlun veltur þó á því að ráðamenn í Ísrael taki upp trúverðuga afstöðu með stofnun sjálfstæðs palestínsks ríkis. Netanjahú, Gallan og Gantz hafa allir þvertekið fyrir að slíkt komi til greina. Það myndi eingöngu leiða til þess að Hamas myndi stjórna sjálfstæðu ríki með landamæri að Ísrael.

Samkomulag sagt líklegast

Síðasta sviðsmyndin sem nefnd er í grein AP þykir einnig sú líklegasta til árangurs að svo stöddu. Hún er í raun runnin undan rifjum leiðtoga Hamas og felur í sér samkomulag um að sleppa öllum gíslum samtakanna í skiptum fyrir að hundruðum Palestínumanna verði sleppt úr haldi í Ísrael. Þar á meðal eru háttsettir Hamas-liðar og aðrir vígamenn en einnig óbreyttir borgarar.

Ísraelar þyrftu einnig að hörfa alfarið frá Gasa, samþykkja vopnahlé til langs tíma og heimila og hjálpa við enduruppbyggingu á Gasa.

Slíkt samkomulag fæli án efa í sér áframhaldandi yfirráð Hamas á Gasaströndinni og myndi líklega gera leiðtogum samtakanna kleift að byggja getu þeirra upp á nýjan leik. Það myndi þó gefa báðum aðilum möguleika á að lýsa yfir einhverskonar sigri.

Mótmælt gegn Netanjahú. Umfangsmikil mótmæli hafa verið haldin í Ísrael þar sem þess hefur verið krafist að hann semji við Hamas.AP/Mahmoud Illean

Þá hafa þúsundir manna tekið þátt í umfangsmiklum mótmælum í Ísrael, þar sem þess hefur verið krafist að Netanjahús samþykki samkomulag sem þetta. Mótmælendur hafa haldið því fram að eina ástæðan fyrir því að hann hafi ekki þegar samþykkt sambærilegt samkomulag sé að bandamenn hans myndu fella ríkisstjórnina og mögulega binda enda á pólitískan feril hans. Þá stæði hann óvarin gegn ákærum um spillingu.

Samkomulag myndi einnig líklega leiða til þess að íbúar í suðurhluta Líbanon og norðurhluta Ísrael geti snúið aftur til heimila sinna. Það gætu flestir íbúar Gasastrandarinnar þó ekki gert, þar sem meirihluta húsa á svæðinu er í rúst eða þau hafa orðið fyrir verulegum skemmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×