Fótbolti

Ís­lendinga­liðin í bullandi fall­bar­áttu eftir töp dagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi er leikmaður Norrköping sem hefur byrjað tímabilið skelfilega.
Arnór Ingvi er leikmaður Norrköping sem hefur byrjað tímabilið skelfilega. Norrköping

Norrköping og Gautaborg eru í bullandi fallbaráttu í sænsku úrvalsdeild karla í fótbolta eftir töp í kvöld. Bæði lið hafa tapað sex af fyrstu 11 leikjum tímabilsins.

Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Norrköping sem mátti þola afhroð á heimavelli. Arnór Ingvi var tekinn af velli þegar stundarfjórðungur lifði leiks en skömmu áður hafði Varnamo skorað tvö mörk með stuttu millibili.

Lokatölur 0-4 og Norrköping ekki unnið leik síðan 28. apríl, síðan þá hefur liðið aðeins náð í eitt stig.

Kolbeinn Þórðarson lék allan leikinn þegar Gautaborg tapaði 5-2 á útivelli gegn AIK. Tvö markanna komu í uppbótartíma en staðan var jöfn 2-2 þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Markvörðurinn Adam Ingi Benediktsson sat allan tímann á varamannabekk Gautaborgar.

Bæði lið eru með 11 stig að loknum 11 umferðum, Norrköping er sem stendur í umspilssæti að halda sæti sínu í deildinni og aðeins stigi fyrir ofan Kalmar sem er í fallsæti. Gautaborg heldur sér fyrir ofan umspilssætið á markatölu einni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×