Fótbolti

Ætlar að spila á ný þrátt fyrir að hafa verið við dauðans dyr

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Var í lykilhlutverki áður en hann veiktist illa fyrr á árinu.
Var í lykilhlutverki áður en hann veiktist illa fyrr á árinu. Foto Olimpik/Getty Images)

Kristoffer Olsson, leikmaður Danmerkurmeistara Midtjylland, segist ætla að spila fótbolta á nýjan leik þrátt fyrir að hafa verið við dauðans dyr fyrr á þessu ári.

Eins og Vísir greindi ítarlega frá fyrr á árinu þá veiktist hinn 28 ára gamli Olsson illa og missti meðvitund á heimili sínu seint í febrúar. Í kjölfarið kom í ljós að hann var með fjölda lítilla blóðtappa í heila og þá í báðum heilahvelum.

Var honum haldið í öndunarvél í margar vikur en er nú kominn á stjá og mætti hann á leikinn þar sem Midtjylland varð Danmerkurmeistari í gær, sunnudag.

„Mér líður frábærlega. Ég mun spila fótbolta á nýjan leik. Ég get hreyft mig, ég get hlaupið og minnið mitt er gott. Ég finn að ég verð betri með hverjum deginum. Ég var með allskyns slöngur í mér meðan ég var á spítalanum en nú er ég aðeins með þetta litla dót sem hjálpar mér að pissa,“ sagði sænski landsliðsmaðurinn í viðtali við Aftonbladet.

„Ég var bókstaflega að deyja. Ég man ekkert eftir því,“ sagði Olsson um fyrstu vikurnar eftir að hann hneig niður á heimili sínu.

Olsson á að baki 47 A-landsleiki. Hann vaknaði úr dáinu í apríl og lét sig dreyma um að spila undir lok tímabilsins. Eftir stutt spjall við læknana sem meðhöndluðu hann áttaði hann sig á því að það væri óraunhæft.

Hann er hins vegar staðráðinn í að spila aftur á ferlinum og væri vitlaust að veðja gegn þessum þrautseiga miðjumanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×