Heimir Már Pétursson fréttamaður fór yfir stöðuna í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Þær þrjár eru þá algjörlega hnífjafnar samkvæmt þessari könnun Prósents. En þarna er fylgistap Katrínar mjög athyglisvert í ljósi fyrri kannanna. Ef það er rétt þá er eitthvað mikið að gerast í könnununum.“
Hann segir baráttuna þó vera á milli þeirra fjögurra, Katrínar, Höllu H, Höllu T, og Baldurs. Síðan sé Jón Gnarr fastur í fimmta sæti.
Heimir Már segir að ef næsta skoðanakönnun Maskínu bendi til þess sama og könnun Prósents þá séu mjög spennandi kosningar fram undan. „Þá verða kosningarnar alveg gífurlega spennandi.“
Hann bendir þó á að það hafi verið mikill munur á niðurstöðum kannanna Prósents annars vegar og könnunum Maskínu og Gallup hins vegar. Þessi munur sjáist best í fylgi Katrínar sem hafi einungis einu sinni mælst með mest fylgi hjá Prósenti.


Þá segir Heimir Már áhugaverða stöðu uppi varðandi kyn forsetaframbjóðendanna.
„Núna eru þrjár konur og einn karlmaður að berjast um Bessastaði, en yfirleitt hafa þetta alltaf verið karlarnir og kannski einhver kona að berjast á móti, og engin þeirra unnið nema Vigdís hingað til.“