Fótbolti

Rígur Ís­lendinga­liðanna sá til þess að keppni var endur­vakin eftir 27 ára hlé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir unnu báðar bikara á dögunum. Svendís varð bikarmeistari en Glódís Perla tók við meistaraskildinum sem fyrirliði Bayern.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir unnu báðar bikara á dögunum. Svendís varð bikarmeistari en Glódís Perla tók við meistaraskildinum sem fyrirliði Bayern. Getty/Daniela Porcelli/Uwe Anspach

Næsta tímabil í þýska kvennaboltanum byrjar á sannkölluðum stórleik. Íslendingaliðin Bayern München og Wolfsburg mætast þá í Ofurbikarnum.

Þessi keppni, sem kallast nú bara Meistarakeppnin hér heima á Íslandi, er nú endurvakin eftir 27 ára hlé. Síðast var spilað um Ofurbikarinn í Þýskalandi árið 1997.

Þýska knattspyrnusambandið gaf það út að leikurinn fari fram í Dresden 25. ágúst.

Bayern varð þýskur meistari á dögunum og Wolfsburg bikarmeistari eftir sigur á Bayern í úrslitaleiknum. Það er mikill rígur á milli liðanna sem eru þau sterkustu í Þýskalandi.

Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði Bayern og Sveindís Jane Jónsdóttir spilar með Wolfsburg. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er líka leikmaður Bayern en var á láni hjá Bayer Leverkusen á nýloknu tímabili. Þá er Cecilía Rán Rúnarsdóttir einnig kominn af stað á ný hjá Bayern eftir erfið meiðsli.

Það sem gerir leikinn enn sérstakari er að þýska landsliðskonan Lena Oberdorf er að skipta á milli félaganna. Fyrsti leikur Lenu verður því með nýja félaginu sínu Bayern á móti gamla félagi sínu Wolfsburg.

Keppninni er ætlað að hjálpa til við að auka útbreiðslu kvennafótboltans í Þýskaland. Leikurinn mun því fara fram á hlutlausum velli og færist á milli landshluta á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×