Upp­gjör: Austur­ríki - Ís­land 1-1 | Fyrir­liðinn bjargaði stigi með marki af vítapunktinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna marki Glódísar.
Íslensku stelpurnar fagna marki Glódísar. Franz Kirchmayr/SEPA.Media /Getty Images

Ísland og Austurríki gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust í undankeppni EM í dag. Heimakonur komust yfir með marki af vítapunktinum um miðjan fyrri hálfleik, en Glódís Perla Viggósdóttir svaraði í sömu mynt í síðari hálfleik.

Leikurinn fór hægt af stað og liðin sköpuðu sér fá sem engin færi fyrstu tuttugu mínúturnar. Diljá Ýr Zomers fékk fyrsta alvöru færið á 23. mínútu þegar fyrirgjöf Söndru Maríu Jessen rataði í lappir hennar, en Diljá hitti boltann illa.

Mínútu síðar fékk Austurríska liðið sitt alvöru tækifæri þegar Alexandra Jóhannsdóttir felldi Lilli Purtscheller innan vítateigs og dómari leiksins benti á punktinn. Sarah Puntigam tók vítið fyrir heimakonur og skoraði af miklu öryggi framhjá Fanneyju Ingu í markinu.

Íslenska liðið fékk sannarlega sín færi til að jafna metin í fyrri hálfleik, en allt kom fyrir ekki. Sveindís Jane Jónsdóttir fékk gott tækifæri á 38. mínútu og Hildur Antonsdóttir hefði getað gert betur í góðri stöðu fimm mínútum síðar. Inn vildi boltinn þó ekki og staðan í hálfleik var 1-0, Austurríki í vil.

Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni í dag.Franz Kirchmayr/SEPA.Media /Getty Images

Íslenska liðið sótti stíft í síðari hálfleik og það var nokkuð ljóst að stelpurnar ætluðu ekki að sætta sig við tapið. Liðið fékk urmul færa, en boltinn vildi hreinlega ekki inn.

Það var svo ekki fyrr en að um það bil stundarfjórðungur var eftir að leiknum að það dró loksins til tíðinda hjá íslensku stelpunum. Guðrún Arnardóttir átti þá skot að marki eftir að boltinn hafði skoppað inni á teig. Skotið fór í hönd Marina Georgieva á leið sinni að marki og vítaspyrna dæmd.

Til að gæta allrar sanngirni verður þó að minnast á það að Georgieva var með höndina alveg upp við líkama og því var dómurinn ansi harður.

Íslenska liðið kvartaði þó ekkert of mikið yfir því að fá eitt stykki vítaspyrnu og fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir skoraði af miklu öryggi.

Eftir markið róaðist leikurinn mikið og í raun lítið markvert sem gerðist. Austurríska liðið færði sig ofar á völlinn og freistaði þess að stela sigrinum, en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli.

Ísland og Austurríki eru því enn jöfn að stigum í riðli 4, nú með fjögur stig hvort eftir þrjá leiki, tveimur stigum a eftir Þjóðverjum sem tróna á toppnum.

Atvik leiksins

Vítið sem Ísland fékk er líklega atvik leiksins. Spyrnan frá Glódísi var frábær, en dómurinn sjálfur var vægast sgt harður. Marina Georgieva var klárlega með höndina upp við líkamann þegar hún fékk boltann í sig.

Stjörnur og skúrkar

Glódís Perla Viggósdóttir steig upp þegar liðið þurfti á marki að halda og þrumaði vítaspyrnunni í hliðarnetið, réttu megin við stöngina. Hún skilar nánast alltaf sínu þegar hún spilar með íslenska landsliðinu og gerði það svo sannarlega í dag.

Alexandra Jóhannsdóttir var hins vegar klaufi í fyrri hálfleik þegar hún braut af sér innan vítateigs og gaf austurríska liðinu, sem ógnaði annars lítið í leiknum, færi á að taka forystuna.

Dómarinn

Finnska dómarateymið með Lina Lehtovaara í fararbroddi hefur líklega oft átt betri daga, þrátt fyrir að undirritaður viti í raun lítið um þeirra dómaraferil. Fyrri vítadómurinn var hárréttur, en svo fékk Alexandra gult spjald sem svo var tekið til baka af einhverjum ástæðum, en seinni vítadómurinn var í besta falli vafasamur.

Umgjörð og stemning

Um 3.700 manns mættu á Josko Arena í Austurríki og virtust skemmta sér bara nokkuð vel. Eitthvað var um Íslendinga í stúkunni og heyrðist vel í þeim.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira