Handbolti

Teitur og Oddur voru báðir níu af níu í lokaumferðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Teitur Örn Einarsson var frábær í sigri SG Flensburg-Handewitt í dag.
 Teitur Örn Einarsson var frábær í sigri SG Flensburg-Handewitt í dag. Getty/Frank Molter

Íslensku handboltamennirnir Teitur Örn Einarsson og Oddur Gretarsson áttu báðir stórleik í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í dag.

Báðir nýttu þeir öll níu skotin sín og voru markahæstu menn á vellinum.

Teitur Örn skoraði níu mörk úr níu skotum þegar Flensburg vann 40-30 sigur á Bergischer. Teitur átti einnig þrjár stoðsendingar og ekkert marka hans kom úr vítum. Teitur er að kveðja Flensburg en hann spilar með Gummersbach á næstu leiktíð.

Oddur skoraði skoraði líka níu mörk úr níu skotum þegar Balingen-Weilstetten vann 37-30 sigur á Hamburg. Daníel Þór Ingason komst ekki á blað hjá Balingen. Fimm mörk Odds komu úr vítum.

Þetta var líka tímamótaleikur fyrir Odd því hann er á heimleið og mun spila með Þórsurum á Akureyri á næstu leiktíð. Hann skoraði þremur mörkum meira en næstmarkahæsti leikmaður vallarins.

Oddur Gretarsson kvaddi Balingen með stjörnuleik.Getty/Tom Weller/

Ole Pregler tryggði Gummersbach 33-32 sigur á Göppingen en Guðjón Valur Sigurðsson hefur gert frábæra hluti með lið Gummersbach sem endaði í sjötta sæti. Arnór Snær Óskarsson var með tvö mörk úr þremur skotum og tvær stoðsendingar. Elliði Snær Viðarsson skoraði ekki.

Viggó Kristjánsson var með sjö mörk og tvær stoðsendingar þegar Leipzig vann 29-24 sigur á Rhein-Neckar Löwen. Andri Már Rúnarsson skoraði eitt mark fyrir Leipzig en Ýmir Örn Gíslason skoraði ekki fyrir Löwen.

Janus Daði Smárason skoraði sjö mörk og gaf fjórtar stoðsendingar þegar Magdeburg vann 37-34 sigur á Wetzlar. Lið Magdeburgar var búið að tryggja sér titilinn og Ómar Ingi Magnússon var mikið hvíldur í leiknum. Hann skoraði þrjú mörk úr þremur skotum en Gísli Þorgeir Kristjánsson spilaði ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×