Fólkið hafði verið látið í einhvern tíma áður en lögregla fékk ábendingu um málið. Ábending barst frá nágranna um að ekki væri allt með felldu. Lögregla braut sér leið inn í húsið þar sem tveir einstaklingar fundist látnir.
Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segist ekki geta veitt neinar frekari upplýsingar um málið á þessari stundu. Hann segir að krufning hafi farið fram daginn eftir að líkin fundust en langur tími geti liðið þar til niðurstöður berast. Hann vonast þó eftir bráðabirgðaniðurstöðum í þessari viku sem geti varpað nánari ljósi á atburðarrásina.
Þannig að þið eruð engu nær varðandi dánarorsök?
„Nei, ég held ég geti sagt það.“
Lögreglan á Vestfjörðum hefur gefið út að ekki sé grunur um saknæmt athæfi. Helgi segir ekkert hafa breyst í þeim efnum.