Innlent

Öku­manns sem ók á mann á rafmagnshlaupahjóli leitað

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Af vettvangi slyssins við gatnamót Akurvalla og Burknavalla.
Af vettvangi slyssins við gatnamót Akurvalla og Burknavalla. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns hvítrar bifreiðar sem ók á karlmann um tvítugt á rafhlaupahjóli merktu Hopp á gangbraut á gatnamótum Akurvalla og Burknavalla í Hafnarfirði á milli klukkan tíu og ellefu í morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur fram að sá sem ekið var á hafi hlotið tjón af árekstrinum en að ökumaðurinn hafi ekið rakleiðis af vettvangi. Farið var með hjólreiðamanninn á slysadeild nokkru eftir slysið, en þaðan var tilkynnt um málið til lögreglu. Á slysadeild kom í ljós að maðurinn er með fjöláverka, meðal annars beinbrot.

„Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi,“ segir í tilkynningunni.

Lögreglan biður ökumann hvítu bifreiðarinnar um að gefa sig fram, en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið 1849@lrh.is

Uppfært 22:48: Málið hefur verið upplýst að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×