Fótbolti

Mbappé um skiptin til Real: Draumur að rætast

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé og Cristiano Ronaldo, þáverandi leikmaður Real Madríd, fyrir þónokkrum árum.
Mbappé og Cristiano Ronaldo, þáverandi leikmaður Real Madríd, fyrir þónokkrum árum. @KMbappe

Franski framherjinn Kylian Mbappé er genginn í raðir Spánar- og Evrópumeistara Real Madríd. Í færslu á samfélagsmiðlum segir Mbappé draum vera að rætast sem og hann birti mynd sér með Cristiano Ronaldo þegar hann var yngri.

Verst geymda leyndarmál fótboltans var opinberað í dag þegar Real Madríd kynnti Kylian Mbappé sem nýjasta leikmann félagsins. Hann skrifar undir fimm ára samning í Madríd.

Nú hefur Mbappé tjáð sig um vistaskiptin en hann segir draum vera að rætast. Færsla hans var svohljóðandi:

„Ég er bæði glaður og stoltur að ganga til liðs við félag drauma minna, Real Madríd. Engin/n getur skilið hversu spenntur ég er á þessari stundu. Madridistas, ég get ekki beðið eftir að sjá ykkur og þakka ykkur fyrir ykkar ótrúlega stuðning. ¡Hala Madrid!“

Þá birti Mbappé jafnframt fjórar myndir af sér í fatnaði merkum Real Madríd þegar hann var á reynslu hjá félaginu á sínum yngri árum. Með honum á einni myndinni er enginn annar en Cristiano Ronaldo.

Hinn 39 ára gamli Ronaldo spilar í dag í Sádi-Arabíu en lék með Real frá 2009 til 2018. Skoraði hann 450 mörk og gaf 131 stoðsendingu í 438 leikjum. Vonast Mbappé eflaust til að leika það eftir sem og að vinna jafn marga titla með félaginu og Ronaldo gerði [15].




Fleiri fréttir

Sjá meira


×