Íslenski boltinn

„Hann þarf greini­lega að borga Stúku­mönnum til að peppa sig upp“

Íþróttadeild Vísis skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson í leiknum gegn HK þar sem hann skoraði og lagði upp mark.
Ísak Snær Þorvaldsson í leiknum gegn HK þar sem hann skoraði og lagði upp mark. vísir/diego

Henry Birgir Gunnarsson segir að ummæli Alberts Brynjars Ingasonar í Stúkunni hafi greinilega kveikt í Ísaki Snæ Þorvaldssyni, leikmanni Breiðabliks.

Albert Brynjar Ingason gagnrýndi Ísak í Stúkunni fyrir frammistöðu hans í leiknum gegn Fylki og sagði hann vera í slöku líkamlegu ásigkomulagi.

Ísak minnti á sig í Kópavogsslagnum í Kórnum á sunnudaginn og skoraði eitt mark og lagði upp annað í 0-2 sigri Breiðabliks á HK. Hann fagnaði marki sínu með því að skjóta á Albert.

„Það eru bara allir að blaðra um að ég sé ekki nógu góður og eitthvað. Það var bara tímaspursmál hvenær myndi kvikna á mér. Það kviknaði á mér í dag,“ sagði Ísak í viðtali við Vísi eftir leikinn. Hann var svo spurður hvort honum fyndist hann hafa fengið ósanngjarna gagnrýni.

„Já og nei. Ég er náttúrlega búinn að vera þungur. Það skiptir ekki máli hvort ég sé þungur eða léttur, ég skora alltaf og ég er bara ánægður.“

Í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar, sagði Henry Birgir að Blikar mættu vel við una eftir fyrsta þriðjung tímabilsins og þeir gætu verið sérstaklega ef Ísak væri að nálgast fyrri styrk. 

„Það hefur verið stígandi í þessu og liðið litið ljómandi vel út. Ísak er farinn að skora og liðið að klára leiki. Hvað eigum við að segja að Ísak sé, 30-40 prósent? Ég myndi halda að hann ætti 50-60 prósent inni,“ sagði Henry Birgir.

„Hann þarf greinilega að borga starfsmönnum Stúkunnar pening til að peppa sig upp. Atli, hefur þú fengið freistandi tilboð?“ bætti Henry Birgir við.

„Þú ert kannski að opna á nýjan bissness,“ svaraði Atli Viðar léttur.

Ísak kom til Breiðabliks á láni frá Rosenborg skömmu fyrir tímabilið. Hann hefur leikið níu leiki í Bestu deildinni og skorað tvö mörk.

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á Spotify sem og öllum hlaðvarpsveitum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×