Íslenski boltinn

KR og FH án lykil­manna í næstu um­ferð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Finnur Tómas sá rautt gegn Val.
Finnur Tómas sá rautt gegn Val. Vísir/Anton Brink

Ef til vill finnur Gregg Ryder lausn á varnarvandræðum KR-liðsins í næstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Miðvarðarpar liðsins, Finnur Tómas Pálmason og Axel Óskar Andrésson, verður í leikbanni þegar KR-ingar sækja ÍA heim þann 18. júní næstkomandi.

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur nú staðfest hvaða leikmenn missa af næstu umferð sem verður leikin eftir yfirstandandi landsleikjahlé. 

Finnur Tómas var sendur í sturtu gegn Val þegar Gísli Laxdal Unnarsson var við það að sleppa einn í gegn þangað til Finnur Tómas felldi hann. Fyrir það verður miðvörður KR-liðsins í leikbanni þegar liðið fer upp á Skaga.

Axel Óskar, hinn miðvörður liðsins, verður einnig fjarverandi. Hann hefur nælt sér í fjögur gul spjöld til þessa á leiktíðinni og er því kominn í eins leiks bann líkt og Finnur Tómas.

KR er ekki eina liðið sem verður án tveggja byrjunarliðsmanna í næstu umferð en FH verður án beggja bakvarða sinna gegn Stjörnunni. 

Böðvar Böðvarsson, vinstri bakvörður liðsins, sá rautt í 3-3 jafnteflinu gegn Fram og verður því ekki með í Garðabænum. Ástbjörn Þórðarson, hægri bakvörður liðsins, hefur síðan sankað að sér fjórum gulum spjöldum.

Þá missir Daníel Hafsteinsson, leikmaður KA, af leik liðsins gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli eftir að næla sér í fjögur gul spjöld.

Næsta umferð Bestu deildar karla fer fram 18. og 19. júní. Verða leikirnir að venju sýndir beint á rásum Stöðvar 2 Sport og gerðir upp í Tilþrifunum og Stúkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×