Sport

Í sex ára keppnis­bann og heims­metið talið ó­lög­legt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rhonex Kipruto á Ólympíuleikunum í Tókíó í Japan árið 2020.
Rhonex Kipruto á Ólympíuleikunum í Tókíó í Japan árið 2020. Abbie Parr/Getty Images

Rhonex Kipruto frá Kenía hefur verið dæmdur í sex ára keppnisbann vegna misræmis í blóðsýnum. Segir heiðarleikadeild frjálsra íþrótta (Athletics Integrity Unit) að því sé staðfest að Kipruto hafi gerst sekur um svindl. Heimsmetið sem hann setti árið 2020 gildir því ekki.

Vísir fjallaði fyrst um mál hins 24 ára gamla Kipruto á síðasta ári en þá var hlauparinn dæmdur í bann þar sem það virtist næsta öruggt að hann hefði svindlað. Niðurstöðunni þá var áfrýjað en nú hefur AIU staðfest dóminn.

Ásamt því að vera dæmdur í bann þangað til í maí árið 2029 þá hefur heimsmetið sem Kipruto setti í 10 kílómetra hlaupi árið 2020 í Valencia á Spáni verið fellt úr gildi. Sama á við um bronsverðlaunin sem hann nældi í fyrir sömu vegalengd á HM í frjálsum íþróttum árið 2019.

Í frétt BBC um málið er fjallað um líffræðilegt vegabréf íþróttafólks eða svokallað ABP. Þar sé hægt að sjá hvort misræmi sé í blóðsýnum og regluleg misræmi bendi til svindls. Er það niðurstaða AIU í máli Kipruto.

„Það kemur ekkert annað til greina sem getur útskýrt mismun blóðsýnanna,“ segir í yfirlýsingu AIU. Málinu er þó ef til vill ekki endanlega lokið en Kipruto getur áfrýjað til Alþjóða íþróttadómstólsins, CAS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×