Sport

Langar að taka eitt ár í við­bót í Katar: „Ekki hættur með lands­liðinu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron Einar á æfingum með íslenska landsliðinu.
Aron Einar á æfingum með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

„Ég er ekki hættur með landsliðinu en ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég er bara að reyna koma mér í gang,“ segir knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið.

Í þættinum valdi hann ellefu bestu samherja sína frá félagsliðaferlinum og stillti upp í byrjunarlið skipað af bestu leikmönnum sem hann spilaði með frá tíma sínum í Þór, AZ Alkmaar, Coventry, Cardiff og Al-Arabi.

Aron hefur verið að glíma við meiðsli undanfarna mánuði sem hafa haldið honum frá knattspyrnuvellinum. Hann kvaddi Al-Arabi á dögunum eftir fimm ára dvöl í Katar. Hann stefnir aftur á móti að því að spila eitt ár til viðbótar í Katar og vonast til að finna sér nýtt lið þar í landi. Aron er 35 ára og mun enda ferilinn hjá uppeldisfélagi sínu Þór á Akureyri eins og hann hefur talað um í mörg ár.

„Ef ég næ að koma mér af stað þá er ég í stöðugu sambandi við Åge [Hareide]. Mér líst mjög vel á Åge og hann kemur virkilega vel inn í þetta. Hann er í rauninni bara að bíða eftir því að ég verði leikfær til að geta valið mig. Ég ætla bara að reyna koma mér í gang í sumar og reyna æfa eins og almennilegur fótboltamaður og ekki bara í ræktinni eins og ég hef verið að gera síðasta árið. Svo kemur þetta bara í ljós. Við værum til í að vera eitt ár í viðbót í Katar og koma svo heim og klára ferilinn með Þór. Ef það gerist í sumar, þá er það bara þannig. Ef ekki þá er það allt í lagi. Ég er ekki að stressa mig. Ég er 35 ára og er ekki að stressa mig mikið á þessu eins og staðan er í dag,“ segir Aron. Hér að neðan má hlusta á allan þáttinn en Aron ræðir um framtíðina undir lok hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×