Körfubolti

Boston tók for­ystuna í úr­slitunum með öruggum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristaps Porzingis sneri aftur í lið Boston Celtics í nótt og átti stórgóðan leik.
Kristaps Porzingis sneri aftur í lið Boston Celtics í nótt og átti stórgóðan leik. getty/Maddie Meyer

Boston Celtics vann öruggan sigur á Dallas Mavericks, 107-89, í fyrsta leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Boston byrjaði leikinn miklu betur og komst mest 29 stigum yfir í fyrri hálfleik. Dallas minnkaði muninn í átta stig í 3. leikhluta en Boston svaraði með fjórtán stigum í röð og leit ekki um öxl eftir það.

Eftir að hafa verið frá vegna meiðsla í mánuð sneri Kristaps Porzingis aftur í lið Boston og það með stæl. Hann skoraði tuttugu stig á 21 mínútu, tók sex fráköst og varði þrjú skot.

Fimm aðrir leikmenn Boston skoruðu tíu stig eða meira í leiknum. Jaylen Brown var stigahæstur heimamanna með 22 stig og Jayson Tatum skoraði sextán stig og tók ellefu fráköst.

Leikmenn Boston hittu vel fyrir utan og skoruðu sextán þriggja stiga körfur í 42 tilraunum.

Luka Doncic skoraði þrjátíu stig fyrir Dallas og tók tíu fráköst. P.J. Washington var með fjórtán stig og átta fráköst en Kyrie Irving skoraði aðeins tólf stig á sínum gamla heimavelli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×