Í þeirri reglugerð kemur meðal annars fram að einsleitar umbúðir skuli notaðar um tóbaksvörur til reykinga. Framsóknarmenn hafa farið framarlega í baráttu gegn reykingum, og má nefna vasklega framgöngu Sivjar Friðleifsdóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem vildi ganga til bols og höfuðs á reykingunum með þeim vopnum sem Framsóknarmenn telja duga.

Í 20. grein reglugerðarinnar er fjallað sérstaklega um umbúðirnar. Þar segir að allt ytra yfirborð einingarpakka og ytri umbúða tóbaksvara skal vera í litnum matt Pantone 448 C. Þetta er þá ríkisliturinn sem hefur verið kjörinn ljótasti litur í heimi.
„Heiti tóbaksvöru og undirtegundar skal vera í litnum matt hvítt. Óheimilt er að merkja tóbaksvöru með táknum eða myndum sem hafa m.a. skírskotun í framleiðanda, heiti eða tegund.“
Í þessu felst sem sagt að stjórnvöld ákveða litinn á pakkningunum og á þeim mega ekki vera nein vörumerki. En nú er auglýst eftir umsögnum.