Erlent

Tólf ára drengir sekir um morð á ní­tján ára gömlum manni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ekki fást neinar frekar upplýsingar um drengina tvo sökum þess hve ungir þeir eru. 
Ekki fást neinar frekar upplýsingar um drengina tvo sökum þess hve ungir þeir eru.  Getty

Tveir tólf ára drengir hafa verið fundnir sekir um að hafa stungið nítján ára gamlan mann til bana í almenningsgarði í bænum Wolverhampton í Bretlandi í nóvember í fyrra. 

Í tilkynningu frá lögreglunni í Vestur-Miðhéruðum segir að drengirnir tveir hafi veist að hinum nítján ára gamla Shawn Seesahai þegar hann gekk ásamt vini sínum í almenningsgarði. 

Seesahai átti rætur að rekja til eyjarinnar Angvilla í Karíbahafi og var tímabundið búsettur í Bretlandi til að gangast undir aðgerð á augum þegar hann varð fyrir árásinni. 

Fram kemur að drengirnir tveir hafi veist að Seesahai, kýlt hann og sparkað í hann svo hann datt í jörðina. Þá hafi þeir stappað á honum og stungið með 42 sentímetra langri sveðju. Að auki hafi þeir skorið í fætur hans með sveðjunni. Stungusárið sem varð honum að bana hafi tuttugu sentímetra djúpt. 

Þá segir að vinur Seesahai hafi komist undan og flúið af vettvangi meðan drengirnir réðust á Seesahai.

Kenndu hvorum öðrum um

Í frétt Sky News um málið segir að maðurinn hafi ekkert gert til að ógna drengjunum, þeir hafi veist að honum án nokkurrar ástæðu. Drengirnir neituðu báðir sök fyrir dómi og kenndu hvorum öðrum um. Þeir sögðu báðir að kveikjan að átökunum hefði verið sú að Seesahai hefði beðið þá um að færa sig af bekk sem þeir sátu á, en atburðarásinni lýstu þeir hvor á sinn hátt fyrir dómi og sögðust hvorugir hafa stungið manninn.

Annar drengjanna játaði þó að hafa haft morðvopnið í fórum sínum. Hann sagðist hafa farið með sveiðjuna heim til sín og þrifið hana með klór vegna þess að það hefði hann séð gert í tónlistarmyndbandi. 

Eins og áður segir úrskurðuðu saksóknarar báða drengina seka um verknaðinn. Drengirnir hafa verið í haldi síðan þeir frömdu árásina og eru sagðir yngstu hnífamorðingjar Bretlandssögunnar í 31 ár, síðan tveir ellefu ára drengir voru fundnir sekir um morð á tveggja ára gömlu barni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×