Erlent

Merki um stríðs­glæpi beggja fylkinga þegar gíslar voru frelsaðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Palestínumenn kanna húsarústir eftir sprengjuárás Ísraela í Nuseirat-flóttamannabúðunum á laugardag. Fjórir gíslar voru frelsaðir í árásinni en Hamas segja að á þriðja hundruð manns hafi fallið.
Palestínumenn kanna húsarústir eftir sprengjuárás Ísraela í Nuseirat-flóttamannabúðunum á laugardag. Fjórir gíslar voru frelsaðir í árásinni en Hamas segja að á þriðja hundruð manns hafi fallið. AP/Jehad Alshrafi

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir að gjörðir bæði Ísraelshers og Hamas-samtakanna þegar Ísraelar frelsuðu fjóra gísla úr haldi um helgina gætu talist stríðsglæpir. Á þriðja hundrað manna féll í hernaðaraðgerðinni.

Ísraelsher réðst inn í Nuseirat-flóttamannabúðirnar á Gasa með sprengjuregni á laugardag. Honum tókst að frelsa fjóra gísla sem vígamenn Hamas tóku höndum á tónlistarhátíð í hryðjuverkaárás samtakanna í Ísrael 7. október. Heilbrigðisyfirvöld Hamas á Gasa segja að 274 Palestínumenn hafi fallið í árásinni á Nuseirat, þar á meðal tugir barna og kvenna.

Jeremy Laurence, talsmaður mannréttindaskrifstofu SÞ, lýsti yfir áhyggjum af því að hvort að aðgerðir Ísraelshers hefðu verið í samræmi við tilefnið, hvort herinn hefði gert greinarmun á vígamönnum og óbreyttum borgurum og hvort hann hefði brotið varúðarreglu í hernaði sínum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Að sama skapi hefðu vopnaðir hópar Palestínumanna stefnt óbreyttum borgurum og gíslum í lífshættu með því að halda gíslunum í þéttbýli.

„Allar þessar aðgerðir beggja aðila kunna að teljast stríðsglæpir,“ sagði Laurence.

Harmaði Laurence að óbreyttir borgarar hefðu enn og aftur lent á milli steins og sleggju í átökum Ísraelshers og vopnaðra sveita Palestínumanna, bæði á laugardag og í stríðinu í heild sinni sem hefur geisað í meira en átta mánuði.

Fagnaðarefni væri að gíslar hefðu verið leystir úr prísund. Krafðist Laurence þess að allir gíslarnir yrðu frelsaðir strax.


Tengdar fréttir

Full­yrða að gíslar hafi fundist í haldi blaða­manns

Ísraelsher heldur því fram að þrír gíslar sem voru frelsaðir úr haldi í hernaðaraðgerð á Gasa um helgina hafi verið í haldi blaðamanns sem starfaði fyrir katörsku sjónvarpsstöðina al-Jazeera. Fjölmiðillinn segir ásakanirnar stoðlausar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×