Lífið samstarf

„Í fyrra­kvöld bjargaði Tesla bif­reið lífi mínu“

Umferðarátak 2024
Mótorhjólakappinn Mikkó lenti í afar erfiðri lífsreynslu fyrir stuttu þegar bíll var næstum búinn að keyra á hann. Hann segir lesendum Vísis sögu sína. Hér er hann, ásamt félögum sínum, við leiði Mumma vinar þeirra á síðasta ári. Í lok júní verða fimm ár síðan hann lést í mótorhjólaslysi í ferðalagi sem klúbburinn var í. Mynd/Unnur Magna
Mótorhjólakappinn Mikkó lenti í afar erfiðri lífsreynslu fyrir stuttu þegar bíll var næstum búinn að keyra á hann. Hann segir lesendum Vísis sögu sína. Hér er hann, ásamt félögum sínum, við leiði Mumma vinar þeirra á síðasta ári. Í lok júní verða fimm ár síðan hann lést í mótorhjólaslysi í ferðalagi sem klúbburinn var í. Mynd/Unnur Magna

Atvinnubílstjórinn og mótorhjólamaðurinn Mikkó lenti í afar erfiðri lífsreynslu síðasta sunnudagskvöld þegar hann tók léttan mótorhjólarúnt á Harley Davidson hjólinu sínu. Ökumaður Teslu bifreiðar var næstum búinn að keyra á hann en svo virtist vera sem hann hafi ekki verið með hugann við aksturinn á því augnabliki.

Mikkó skrifaði langa stöðufærslu á Facebook um þessa reynslu sína og gaf hann Vísi góðfúslegt leyfi til að birta hana.

Bylgjan, Vísir, Stöð 2, Samgöngustofa, Steypustöðin, Hopp, F.Í.B., Hreyfill, Bifhjólasamtök lýðveldisins og Bílaleiga Akureyrar standa fyrir Umferðarátaki 2024 sem er 10 vikna umferðarátak í sumar.

Hér má lesa stöðufærslu Mikkós:

Varúð, þetta er ekki auðlesin status fyrir mæður, mínar alla vega.

Í fyrrakvöld bjargaði Tesla bifreið lífi mínu. Sá sem sat við stýrið (kýs að kalla hann ekki ökumann) hafði ekkert með það að gera. Hefði þetta ekki verið svona snjall bíll, þá væri ég ekki hér að skrifa þetta, heldur væri fjölskylda og ástvinir mínir í sárum að huga að því að skrifa minningargrein.

Þannig er að í fyrrakvöld [sunnudaginn 9. júní] ákvað ég að nýta fallegt og hlýtt sumarkvöld í að fara einn út í smá innanbæjar mótorhjólarúnt, frekar slakur, ekkert stress og njóta þess einnig hvað það var lítil umferð.

Kl. 22 var ég staddur á gatnamótum Klettagarða og Sæbrautar og hugðist beygja þar til vinstri (í austur átt) inn á Sæbraut og þar með þvera götuna.

Ég beið dálitla stund og loks kom grænt ljós. Af fenginni reynslu lít ég til beggja hliða þó svo ég sé á grænu ljósi (til að vera viss að engin sé að fara að rjúka yfir á rauðu) og tek svo af stað.

Mikkó á góðri stundu með tveimur af barnabörnum sínum. Hann hvetur bílstjóra að vera vakandi í umferðinni og einbeita sér að akstrinum.

Þegar ég er kominn hálfa leið yfir (í beinni línu við vinstri akrein Sæbrautar í vestur átt) lít ég til vinstri og sé þar Teslu bifreið hemla af öllu afli og staðnæmdist bifreiðin kannski 5-7 metrum frá mér.

Við þetta fara „hazard“ ljósin á Tesluna að blikka og furðulostinn maður bakvið stýrið á Teslunni horfði á mig, líklega að sjá mig fyrst þá.

Mér þykir ansi líklegt að hann hafi verið á meiri ferð en almennt getur talist. Ég viðurkenni að mér brá hressilega og skelfdist töluvert líka.

Ég hélt aðeins áfram og stoppaði svo stuttu seinna til að vinna aðeins úr því sem gerðist.

Þetta atvik hefur setið í mér núna í tvo daga og eftir samtöl við Teslu eigendur og Google frænda er mér ljóst að árekstrarvörnin í bílnum var það sem bjargaði mér. Sá sem sat bakvið stýrið hefur verið með athyglina á einhverju allt öðru en að stjórna ökutæki.

Við þig ókunnugi dökkhærði ökumaður á blárri Teslu vil ég segja: Við skulum báðir þakka fyrir hvers lags ökutæki þú varst í, því annars hefðir þú með gáleysi/kæruleysi þínu orðið valdur að banaslysi eða í besta falli örkumlun.

Eins vona ég að þú hafir dregið þann lærdóm af þessu hversu mikið ábyrgðar hlutverk það er að sitja við stýri á bíl.

Svo þakka ég fyrir að ég hafi ekki sett hjólið á standarann og átt við þig orð því það er algerlega óljóst að ég hefði haft stjórn á gjörðum mínum Það var líklega okkur báðum fyrir bestu.

Ég hef sjálfur lent í og orðið vitni að alvarlegum slysum, eins þekki ég til fólks sem hefur orðið vitni af og verið hlutaðeigandi í banaslysum og veit ég hvaða áhrif slíkt hefur og myndi ekki óska nokkrum að upplifa það.

Ég get bara rétt ímyndað mér hvers lags sár sitja eftir hjá þeim sem valda banaslysi og þá sérstaklega með hugsunar- og gáleysi.

Ég starfa sem atvinnubílstjóri og sé ég daglega hve gríðarlegt athyglisleysi fólks er og þykir mér síma/tækjanotkun fólks hreinlega ógnvænleg.

Mynd/Unnur Magna.

Hvað er til ráða? Jú, látið tækin eiga sig við akstur og fylgist með hvað þið eruð að gera þegar þið sitjið bakvið stýrið á ökutæki.

Ég er eiginmaður, faðir, afi, sonur, bróðir, vinur, gildur þjóðfélagsþegn og almennt frekar næs gaur.

Ég kom heill heim þetta kvöld, þökk sé bláu Teslunni, sem var síður en svo sjálfgefið.

Þið megið gjarnan deila þessu svo sem flestir átti sig vonandi á því hvað umferðin getur verið dauðans alvara.

Förum varlega og komum heil heim.

Ást & friður






Fleiri fréttir

Sjá meira


×