Viðskipti innlent

Stefnt á að virkjun Hvalár geti hafist eftir tvö ár

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í viðtali við Stöð 2 í dag.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í viðtali við Stöð 2 í dag. Einar Árnason

Hin umdeilda Hvalárvirkjun á Ströndum er aftur komin á fullt í undirbúningi. Samningur sem Vesturverk, dótturfélag HS Orku, og Landsnet gerðu á dögunum miðar við að virkjunarframkvæmdir geti hafist eftir tvö ár.

Í fréttum Stöðvar 2 voru deilurnar um Hvalárvirkjun rifjaðar upp. Frægt var fyrir sex árum þegar andstæðingar hennar gerðu misheppnaða tilraun til að ná meirihluta í hinum fámenna Árneshreppi með lögheimilisflutningum sem flestir voru úrskurðaðir ólögmætir. Árið eftir blossuðu deilurnar upp á ný þegar virkjunaraðilinn hóf að lagfæra vegslóða að fyrirhugaðri virkjun.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku og stjórnarformaður VesturVerks, skrifuðu í síðustu viku undir samkomulag vegna undirbúnings tengingar Hvalárvirkjunar við flutningskerfi Landsnets. Einng eru á myndinni Svandís Hlín Karlsdóttir frá Landsneti og Friðrik Friðriksson frá HS Orku.Landsnet

Síðan hefur lítið heyrst af Hvalárvirkjun en núna er hún aftur komin á dagskrá. Í siðustu viku skrifuðu fulltrúar Landsnets, Vesturverks og HS Orku undir samning um næstu skref.

„Við vorum að skrifa upp á samning við þá um að hefja undirbúning að því að tengja virkjunina við meginflutningskerfið,” segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Séð yfir Hvalárfoss og ósa Hvalár þar sem vegurinn endar núna. Ófeigsfjörður í baksýn.EGILL AÐALSTEINSSON

Guðmundur Ingi segir Hvalárvirkjun verða nokkuð stöðuga vatnsaflsvirkjun. Tenging hennar inn á miðja Vesturlínu í Kollafirði í Reykhólahreppi með tengipunkti í Ísafjarðardjúpi þýði að draga muni úr truflunum á flutningi raforku til Vestfirðinga.

„Og bætir í raun öryggið á Vestfjörðum verulega. Við þurfum þá að keyra minni olíu í varaaflsstöðvunum á Vestfjörðum á móti.”

Yfir Ófeigsfjarðarheiði yrði annaðhvort lögð loftlína eða jarðstrengir að einhverju leyti, að sögn Guðmundar, en þessu gæti einnig fylgt vegtenging með línuvegi milli Djúps og Árneshrepps.

Hvalárvirkjun gæti fylgt vegtenging yfir Ófeigsfjarðarheiði milli Ísafjarðardjúps og Árneshrepps.Garfík/Hjalti Freyr Ragnarsson

„Það yrði hugsanlega ný leið sem gæti þjónað ferðamönnum ef hún er byggð upp með þeim hætti.”

Þrjár virkjanir í Djúpinu, sem eru til skoðunar, gætu einnig fengið sama tengipunkt en þær eru Austurgilsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun. Forstjóri Landsnets segir undirbúning þeirra á misjöfnu stigi.

„Við vitum svo sem ekki hver niðurstaðan verður af þeim. En við horfum allavega það langt til framtíðar að við gætum orðið við verkefnum þar, ef á reyni.”

Vinnuvélar á vegum Vesturverks lagfærðu slóðann um Ingólfsfjörð sumarið 2019.KMU

Hvalárvirkjun upp á 55 megavött hefur þegar fengið grænt ljós í rammaáætlun stjórnvalda. En hvenær er stefnt á framkvæmdir?

„Við miðum við það að fylgja HS Orku eftir og þeir tala um ´26 til ´28. Og við miðum bara við það,” segir Guðmundur Ingi Ásmundsson.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×