Viðskipti innlent

Vetrarþjónustan þungur baggi á borginni

Árni Sæberg skrifar
Einar Þorsteinsson er borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson er borgarstjóri. Stöð 2/Einar

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar var neikvæð um 3.292 milljónir króna á þremur fyrstu mánuðum ársins. Það er 1.357 milljónum króna lakari niðurstaða en gert var ráð fyrir. Meðal þess sem skýrir lakari afkomu er vetrarþjónusta borgarinnar, sem fór 782 milljónir króna umfram fjárheimildir.

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar til Kauphallar segir að fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar hafi lagt fram óendurskoðað rekstraruppgjör A-hluta fyrir tímabilið janúar til mars 2024. Uppgjörið sé gert í samræmi við sveitarstjórnarlög, lög um ársreikninga og reglugerð um bókhald, fjármál og ársreikninga sveitarfélaga.

Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum

Rekstrarniðurstaða A-hluta hafi verið neikvæð um 3.292 milljónir króna en gert hafi verið ráð fyrir í áætlun að hún yrði neikvæð um 1.935 milljónir króna á tímabilinu. Niðurstaðan sé því 1.357 milljónum króna lakari en áætlað var. 

Vetrarþjónusta og útgjöld vegna vegna barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir 

Frávik skýrist einkum af hærri launakostnaði, sem hafi verið 349 milljónum króna hærri en áætlað var ásamt því að annar rekstrarkostnaður hafi verið 542 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir í áætlun. 

Helstu frávik skýrist af vetrarþjónustu, sem hafi farið 782 milljónir króna umfram fjárheimildir vegna aukinnar þjónustu og ótíðar, útgjalda vegna barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir, sem hafi numið 346 milljónum króna umfram áætlun. Þá hafi kostnaður verið umfram áætlanir á skóla- og frístundasviði. 

Veltufé undir áætlun en meira en í fyrra

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITA) hafi verið jákvæð um 1.589 milljónir króna, sem sé um 1.036 milljónum króna lakari niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlun. Veltufé frá rekstri hafi verið  jákvætt um 361 milljónir króna eða 789 milljónum króna lægra en áætlað var. Veltufé frá rekstri hafi 573 milljónum krónum betra en á sama tíma árið 2023.

Rekstraruppgjörið hafi verið lagt fram í borgarráði í dag í samræmi við tímaáætlun um framlagningu á mánaðar- og árshlutauppgjörum ársins 2024.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×