Körfubolti

Celtics vilja sjá Horford hampa titlinum: „Þetta snýst um meira en bara mig“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Al Horford hefur oft fundið lykt af titli en aldrei komist alla leið. 
Al Horford hefur oft fundið lykt af titli en aldrei komist alla leið.  AP Photo/Morry Gash

Hinn 38 ára gamli miðherji Al Horford getur tryggt sinn fyrsta NBA titil í kvöld ef Boston Celtics vinna Dallas Mavericks. Liðsfélagar hans vilja sjá hann lyfta titlinum en sjálfur heldur Horford báðum fótum á jörðinni fyrir leik kvöldsins og vonast til að geta veitt aðdáendum liðsins ánægju. 

Horford á að baki 184 leiki í úrslitakeppni NBA á sínum 17 ára ferli. Hann hefur aðeins tvisvar misst af úrslitakeppninni, sex sinnum hefur hann farið í úrslitaeinvígi austursins og tvisvar í úrslit deildarinnar.

Hann er aðeins einn af þremur spilandi leikmönnum í NBA deildinni sem á fleiri en 149 leiki í úrslitakeppninni án þess að vinna titill. Hinir tveir eru James Harden og Chris Paul. 

Þrátt fyrir að vera svo nálægt markmiðinu heldur Horford einbeitingu og hugsar ekki um annað en að klára verkefnið.

„Við leyfum okkur ekki að hugsa fram í tímann. Við erum bara að reyna að einbeita okkur að því sem við þurfum að gera. Verkefninu er ekki lokið ennþá,“ sagði Horford í viðtali. 

Horford hefur verið leikmaður Celtics tvívegis, fyrst frá 2016-19 og aftur frá 2021. Í fyrri tíð fór hann lengst í úrslit austursins árið 2018 þegar Celtics duttu úr leik gegn Cleveland Cavaliers. Í seinni tíð komst hann í úrslit 2021 en tapaði fyrir Golden State Warriors.

Nýlega hafa liðsfélagar hans undirstrikað mikilvægi hans fyrir Celtics og sagt að þeir ætli að vinna titilinn fyrir hann. 

En Horford segir sigurinn ekki snúast um sig aðdáendur liðsins eigi hann skilið eftir að hafa stutt við bakið á liðinu öll þessi ár.

„Þetta snýst um meira en bara mig. Við erum með fullt af aðdáendum sem hafa verið að bíða eftir þessu tækifæri. Við höfum gengið í gegnum erfiðleika sem lið undanfarin ár. Að vera svona nálægt þessu núna er ótrúlegt.“

Fjórði leikur Boston Celtics gegn Dallas Mavericks fer fram í kvöld. Upphitun og bein útsending á Stöð 2 Sport 2 hefst klukkan 00:00.

NBA

Tengdar fréttir

Boston með níu fingur á titlinum

Boston Celtics er aðeins einum sigri frá því að verða NBA-meistari í körfubolta. Liðið vann Dallas Mavericks í þriðja leik liðanna í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×