Fótbolti

Segir Ron­aldin­ho hafa beðið um miða á leiki Brasilíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Raphinha í leik með Brasilíu.
Raphinha í leik með Brasilíu. Masashi Hara/Getty Images

Raphinha, leikmaður Barcelona og brasilíska landsliðsins í fótbolta, skilur hvorki upp né niður í ummælum goðsagnarinnar Ronaldinho. Segir Raphinha landsliðsmanninn fyrrverandi hafa beðið um miða á leiki liðsins í Suður-Ameríkukeppninni.

Ronaldinho hefur gefið út að hann ætli ekki að horfa á Brasilíu keppa í Suður-Ameríkukeppninni þar sem hann hafi fengið nóg. Ummælin komu nokkuð upp úr þurru en virðist sem Ronaldinho sé fúlasta alvara.

Hinn 27 ára gamli Raphinha, sem spilar í dag með Barcelona eftir að hafa staðið sig með prýði hjá Leeds United á Englandi, skoraði eina mark Brasilíu í 1-1 jafntefli við Bandaríkin á dögunum.

Hann skilur ekkert í yfirlýsingu Ronaldinho og veltir fyrir sér hvort um auglýsingu af einhverju tagi hafi verið að ræða.

„Ég veit persónulega að það er mjög stutt síðan hann var annarrar skoðunar því hann bað Vinícius Júnior um miða á leikina okkar,“ sagði Raphinha meðal annars.

„Yfirlýsing hans kemur mér að sjálfsögðu á óvart og ég er alls ekki sammála því sem hann segir,“ bætti Raphinha við en Ronaldinho gagnrýndi landslið Brasilíu harkalega í yfirlýsingu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×