Erlent

Hyggjast gera dag­leg hlé á á­rásum til að auka við neyðar­að­stoð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Að meðaltali óku 97 flutningabílar hlaðnir neyðarbirgðum á dag til Gasa í maí. Í samanburði óku fimm hundruð slíkir bílar til Gasa áður en stríðið hófst í október í fyrra. 
Að meðaltali óku 97 flutningabílar hlaðnir neyðarbirgðum á dag til Gasa í maí. Í samanburði óku fimm hundruð slíkir bílar til Gasa áður en stríðið hófst í október í fyrra.  AP

Ísraelsher hefur tilkynnt að gerð verði dagleg hlé á hernaði með fram stofnbraut á Gasa í þeim tilgangi að hleypa meiri neyðarbirgðum inn á svæðið. 

Í frétt BBC kemur fram að fyrsta hléið hafi verið gert í gær og þau munu standa yfir alla daga milli klukkan átta á morgnanna til klukkan sjö á kvöldin. 

Hléin eiga þó bara við um veg sem liggur frá Kerem Shalon landamærunum í suðurhluta Gasa, um Salah al-Din stofnbrautina og að Evrópska sjúkrahúsinu nærri borginni Khan Younis. Í tilkynningunni er áréttað að ekki sé um vopnahlé að ræða og að árásir muni halda áfram í Rafah-borg.

Alþjóðsamfélagið, þar á meðal Bandaríkin, hefur þrýst á Ísraelsríki að linna árásum á Gasa, þar sem neyðarástand ríkir. Ísraelsher segir tilkynninguna um daglegu hléin koma í kjölfar viðræðna við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðlegar stofnanir. 

Nokkur hundruð þúsund manns hafa flúið Rafah vegna vegna umfangsmikilla árása Ísraelshers á borgina í síðasta mánuði. Þá hertók Ísraelsher Rafah-landamærin við Egyptaland, Gasa-megin. Landamærin voru áður helst notuð til að flytja neyðarbirgðir yfir á Gasa en hafa ekki verið notuð í þeim tilgangi frá því að Ísrael hertók þau í byrjun maí.

Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri WHO sagði á miðvikudag að stærsti hluti íbúa Gasa lifi við hörmulegar aðstæður og hungursneyð.

Daglegt magn neyðarbirgða á Gasaströndina hefur að auki gjörlækkað. Að meðaltali óku 97 flutningabílar hlaðnir neyðarbirgðum á Gasa í maí, 169 í apríl og 139 í mars. Til samanburðar var fimm hundruð slíkum bílum ekið daglega á Gasa áður en stríði var lýst yfir í október í fyrra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×