Þetta sýnir rannsókn AP-fréttaveitunnar, sem unnin var í samstarfi við vopnasérfræðinga og lögfræðinga. Rannsóknin byggir á greiningu á tíu loftárásum Ísreaelshers í október, nóvember og desember síðasta árs, sem felldu rúmlega fimm hundruð manns. Þá er rannsóknin að hluta byggð á gögnum frá heilbrigðisráðuneytinu á Gasa, sem lýtur stjórn Hamas-samtakanna.
Minnst sextíu fjölskyldur hafa misst 25 eða fleiri
Rannsókn AP leiddi í ljós að minnst sextíu stórfjölskyldur á Gasa misstu meira en 25 fjölskyldumeðlimi í loftárásum á fyrstu þremur mánuðum stríðsins.
AP hefur eftir Rashid Khalidi, palestínsk-bandarískum sagnfræðingi að stríðið nú sé orðið það mannskæðasta í nútímasögu Palestínu, mannskæðara en stríðið árið 1948, sem kallað er „Nakbah“ eða „hörmungarnar“.
Frændur og frænkur eins og hráviði á gólfinu
Í frétt AP um rannsóknina eru sögur sex stórfjölskyldna sem hafa farið illa út úr stríðinu raktar. Þar segir meðal annars frá Salem-fjölskyldunni, sem sögð er hafa misst 173 fjölskyldumeðlimi í tveimur árásum Ísraelshers. Þeirra á meðal fjölda barna, ólétta konu og 87 ára ættföðurinn.
Þann 11. desember hafi loftárás hæft þyrpingu heimila í eigu fjölskyldunnar. Eitt hús hafi gjöreyðilagst og fjöldi skemmst. Minnst áttatíu hafi verið drepnir.
Sjö dögum seinna hafi loftárás verið gerð á einbýlishús í Rimal, þar sem fjölskyldumeðlimir höfðu leitað skjóls eftir fyrri loftárásina. Þá hafi minnst níutíu látið lífið.
„Ég sá lík frænda minna og frænka eins og hráviði á gólfinu. Við þurftum að nota skilríki þeirra til að bera kennsl á þau, þau voru bara hrúgur af holdi,“ er haft eftir Mohamed Salem, sem lifði síðari árásina af.