„Ég er með svona skýli byggt fyrir anddyrið hjá mér og þeir eru bara fluttir inn þangað,“ segir hann í samtali við fréttastofu.
Spörð við anddyrið
Hann segist hafa haft samband við lögreglu sem fullvissaði hann um að hrútunum yrði smalað úr bænum.
„Þeir eru að skíta þarna fyrir framan útidyrnar hjá mér. Þetta er ekki mjög skemmtilegt,“ segir Baldur.
Eiginkona hans birti færslu á íbúahóp Voga á Vatnsleysuströnd á Facebook þar sem hún kvartaði undan umsátri hrútanna. Viðbrögðin voru misjöfn í athugasemdunum. Sumir tóku undir en aðrir fundu til með hrútunum sem voru ekki að gera annað en að leita sér skjóls frá rigningunni.
Baldur segist þó vera orðinn þreyttur á aðgerðarleysi bæjarins og eiganda hrútanna.
„Þetta er búið að vera svona í nokkur ár og það hefur verið kvartað hjá bænum og það virðist öllum vera bara alveg sama,“ segir hann.
„Þið gerið ykkur einhvern mat úr þessu og kannski gerum við mat úr hrútunum,“ bætti hann svo við og hló.
Hrútarnir séu hinir ljúfustu
Árni Magnússon er bóndi á Vatnsleysuströnd og er eigandi téðra hrúta. Hann segir leiðinlegt að þeir hafi verið að angra íbúa og að þeir verði sóttir hið snarasta. Hrútarnir séu þó hinir ljúfustu.
„Maður er alltaf búinn að smala þeim en grasið er alltaf grænna hinum megin. Þeir hlaupa bara út úr girðingunni og rölta þarna yfir. Þeir eru á leiðinni inni í girðinguna aftur. Leiðinlegt að þeir hafi verið að angra fólk, það er ekki gott,“ segir Árni í samtali við fréttastofu.