Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að manninum sé gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi í fjórar vikur, til 17. júlí, á grundvelli almannahagsmuna.
Þá segir að rannsókn málsins hafi gengið vel og nokkuð greinagóð mynd af atburðarás liggi fyrir.
Greint var frá því í síðustu viku að rétt fyrir miðnætti þriðjudagsins 11. júní hefði lögreglu borist tilkynning um átök í heimahúsi í Súðavík. Fram kom að einn hefði verið stunginn.
Karlmaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á heilbrigðisstofnun Vestfjarða, á Ísafirði og í kjölfarið með sjúkravél á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var með lífshættuleg stungusár en er úr lífshættu.