Lífið

Allar líkur á því að eigin­maður Páls Óskars verði ís­lenskur ríkis­borgari

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Páll og Edgar hafa miklu að fagna í lífinu.
Páll og Edgar hafa miklu að fagna í lífinu.

Allar líkur eru á því að Edgar Antonio Lucena Angarita eiginmaður Páls Óskars Hjálmtýssonar, verði brátt íslenskur ríkisborgari. Þetta er ljóst eftir að allsherjar-og menntamálanefnd lagði til í dag að hann yrði meðal 23 sem fái íslenskt ríkisfang.

Edgar Antonio, sem er upprunalega frá Venesúela, giftist Páli Óskari heima í stofu þann 27. mars síðastliðinn. Þeir hafa verið saman í meira en ár en í júní á síðasta ári opinberaði Páll í samtali við Vísi að hann hefði loksins fundið ástina, 53 ára að aldri. Sagðist hann við tilefnið vera hamingjusamasti hommi í heimi.

Páll og Edgar fengu Brynhildi Björnsdóttur athafnastjóra Siðmenntar til að gefa sig saman. Þá hétu hjónin því að endurtaka leikinn síðar og bjóða öllum sem þeir þekkja í brúðkaupsveislu.

„Takk, Edgar Antonio Lucena Angarita, ástin í lífi mínu og núna maðurinn minn. Allir sem þekkja mig segja það sama: þau hafa aldrei séð mig svona hamingjusaman í lífinu,“ sagði Palli á einlægum nótum þegar þeir giftu sig.

„Ég ætla að vera besti eiginmaður í heimi, og akkúrat þegar þú heldur að ég geti ekki orðið betri fyrir þig, þá mun ég halda áfram að koma þér á óvart, bæta mig meira og verða bara betri,“ skrifar Páll Óskar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×